150. löggjafarþing — 134. fundur,  2. sept. 2020.

húsnæðismál.

926. mál
[18:08]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Við ræðum hér mál sem varðar hagsmuni fjölda fólks. Fyrst og fremst varðar það vissulega hagsmuni þeirra tekjulágu einstaklinga og fjölskyldna sem úrræðinu er beint að, og það er vel. En það varðar líka þorra almennings sem á hreinlega mjög mikið undir því hvernig mál þróast á fasteignamarkaði. Eins og við vitum er þorri almennings með sparifé sitt undir í fasteignum á þessum markaði. Það er til mjög mikils að vinna að vel takist til, ekki bara varðandi þá tekjulágu einstaklinga sem þetta félagslega úrræði beinist að heldur almennt varðandi þá sem eiga hagsmuna að gæta á fasteignamarkaði.

Ég tel víst að við séum öll meðvituð um að mál hafa þróast á þann veg að fjárfesting í steypu borgar sig á Íslandi. Ef við skiptum síðustu 20 árum niður í fimm ára tímabil hefur vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu t.d. hækkað um 30–70% á hverju einasta tímabili, yfirleitt nokkuð umfram vísitölu launa. Þar hafa aðgerðir stjórnvalda og yfirlýst stefna ekki síst haft áhrif. Á sama tíma er leiguumhverfi sem byggt hefur verið hér á landi nokkuð óhagstætt og því er það góðra gjalda vert og mikilvægt að ríkisstjórnin geri fasteignamarkaðinn aðgengilegri tekjulágum einstaklingum og fjölskyldum með félagslegu úrræði á borð við það sem er til umræðu hér.

En aðgerðir og úrræði af þessu tagi þurfa að uppfylla ýmis skilyrði ef vel á að vera. Fyrst og fremst verður að liggja fyrir að aðgerðirnar gagnist þeim sem ætlunin er að hjálpa. Aðgerðir af þessu tagi þurfa að vera einfaldar, skýrar og aðgengilegar. Þær þurfa líka að vera sanngjarnar og stjórnvöld þurfa að tryggja jafnrétti við beitingu þeirra. Þar með þarf að hafa fullnægjandi greiningar að baki svo að ljóst sé hver áhrif úrræðisins verða á fasteignamarkaðinn. Það er mikilvægt núna til að ríkisstjórnin geti staðið við skuldbindingar sínar samkvæmt lífskjarasamningunum, til að úrræðið skili tilætluðum árangri og valdi ekki þeim hópi fólks sem úrræðinu er beint að, þeim sem verið er að aðstoða með þessum aðgerðum, tjóni og valdi ekki húsnæðismarkaðnum í heild tjóni sem síðan geti reynst erfitt að vinda ofan af.

Mér finnst ekki nægilega ljóst að þessi skilyrði séu öll uppfyllt í þessu frumvarpi hæstv. ríkisstjórnar. Það er t.d. jákvætt að styðja við nýbyggingar. Slíkar ráðstafanir eru til þess fallnar að draga úr húsnæðisskorti og vinna gegn þeim verðhækkunum á íbúðamarkaði sem verða þegar framboðið er ekki nægilegt. Aftur á móti tel ég ástæðu til að setja spurningarmerki, eins og ég hef gert áður, við þá ákvörðun hæstv. ráðherra að beina tekjulágum fyrstu kaupendum og öðrum tekjulágum kaupendum sem úrræðið nær til í nýbyggingar með þeim undanþágum vissulega sem á seinni stigum hafa verið kynntar til sögunnar fyrir landsbyggðina. Fermetraverð á nýjum íbúðum er hærra en almennt markaðsverð. Gera má ráð fyrir því að það muni þar af leiðandi líka hækka hlutfallslega minna á gildistíma úrræðisins en annarra íbúða. Þetta er grundvallaratriði sem opnar fyrir þá spurningu hvort ekki væri skynsamlegra að beina fólki sem sækir í að nýta þetta úrræði í hagkvæmara húsnæði en tryggja á sama tíma uppbyggingu jafn margra íbúða á almennum markaði.

Ég get heldur ekki látið vera að nefna hér enn og aftur að mér þykir miður að stjórnvöld skuli með þessari nálgun vera að hlutast til um það hvar tekjulágt fólk getur valið sér búsetu — nei, valið er ekki rétta orðið hér vegna þess að það er einmitt verið að taka valið af fólki. Það er verið að hlutast til um það hvar fólk getur búið, við vitum öll að íbúðir eru jú byggðar þar sem pláss er fyrir íbúðir. Þetta er gagnrýnisvert og ég geng út frá því að með þessari nálgun séu stjórnvöld að reyna að afmarka þennan hluta markaðarins til að koma í veg fyrir að úrræðið hafi verðhækkandi áhrif á markaðinn heild. Það getur vel verið að það dugi en þá bara til mjög skamms tíma, til mjög fárra ára. Vegna þess að um leið og þessar tilteknu íbúðir fara síðan að ganga kaupum og sölum smitast áhrifin yfir á markaðinn í heild. Mér þykir þetta því ansi heftandi og stórt atriði og ávinningurinn sem ætlunin er að ná fram hverfandi.

Ríkisstjórnin gerir ráð fyrir að 4 milljörðum kr. verði varið á ári í hlutdeildarlán fyrir kaup á 400–500 íbúðum. Þetta eru 8–10 millj. kr. á hvern lánþega eða 20% af íbúðum sem kosta að meðaltali 40–50 millj. kr. Til samanburðar seljast góðar þriggja herbergja íbúðir á höfuðborgarsvæðinu á 30–40 millj. kr. Með því að heimila töku hlutdeildarlána til kaupa á eldri fasteignum, og hægt er að setja einhver skilyrði við það, að þær megi ekki vera eldri en 20, 30 eða 40 ára, hvað veit maður — þetta eru íbúðir sem eru margar og líklega flestar í mjög góðu standi — væri hægt að gera þetta úrræði aðgengilegra og hagkvæmara fyrir fleiri. Fleiri komast í eigið húsnæði og mjög líklega myndi þetta stuðla að meiri eignamyndun fólks yfir lánstímann. Þetta er ein athugasemdin sem ég hef en þær eru fleiri.

Eitt af þeim skilyrðum sem ég fór yfir áðan að mér fyndist að svona úrræði þyrfti að uppfylla snýr að því að stjórnvöld verði að tryggja að úrræðið gagnist þeim sem þurfa á því að halda. Það liggur í augum uppi að ef það tekst ekki er betur heima setið en af stað farið. Lánshlutfall úrræðisins er mjög hátt og vextirnir eru þeir sömu og hækkun íbúðaverðs eins og hér hefur verið farið yfir. Fólk er með öðrum orðum að taka þessi lán án þess að vita fyrir fram vaxtaprósentuna. Hún getur orðið hærri en vextir af öðrum lánum. Hún getur vissulega orðið lægri en það sem við vitum um þróun húsnæðisverðs er að mun meiri líkur eru á því að a.m.k. hluti eignamyndunar hjá fólki sem nýtir þetta úrræði rati í hendur ríkissjóðs aftur, þ.e. að verðhækkunin, eignamyndunin, verði umfram þá vexti sem eru í gildi á öðrum lánum. Á síðustu tíu árum hækkaði vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu að nafnvirði um 103%. Ef það er heimfært á hlutdeildarlánin jafngildir það 7,2% vöxtum á ári og engri eignamyndun. Ef við berum saman 10 millj. kr. hlutdeildarlán og jafn hátt hefðbundið íbúðalán, sem ber 6% ársvexti, og greiddar eru 100.000 kr. inn á höfuðstól í hverjum mánuði, hefði hlutdeildarlánið á síðustu tíu árum borið vexti upp á 10,2 millj. kr. en almenna lánið vexti upp á 3,14 millj kr. Það er 7 millj. kr. kostnaður. En vissulega ber að halda því til haga að lántakandi greiðir ekki af láninu yfir lánstíma. Þarna eru kostir og gallar við hvora aðferð fyrir sig. Ég hefði viljað sjá þessa þætti fá meiri vigt í umræðunni um þetta mál vegna þess að eignamyndun er nokkuð sem skiptir alla íbúðaeigendur máli, allan almenning máli. Ég myndi telja að það væri ekki síst mikilvægt fyrir tekjulágt fólk.

Þetta úrræði þýðir samt auðvitað, og ég dreg enga fjöður yfir það, að það er hópur fólks sem getur þarna keypt sína eigin fasteign sem annars hefði ekki átt kost á því. Það er líka hópur fólks sem mun fara fyrr en ella inn á fasteignamarkaðinn. En það er mikilvægt að halda því til haga að í ljósi þessara gagna, og í ljósi þeirrar reynslu sem við höfum af verðþróun á fasteignamarkaðnum undanfarna áratugi, þá er þetta ekki ódýrt úrræði fyrir fólk. Svo er líka hætt við því að eftirspurnin eftir úrræðinu verði mun meiri en ríkisstjórnin gerir ráð fyrir. Í þeirri sviðsmynd er fyrirsjáanlegt að bankar og sparisjóðir og aðrar lánastofnanir, sem lána fyrir þeim 75% sem eftir standa, forgangsraði fólki eftir greiðslugetu og verst settu hóparnir verði enn og aftur út undan. Það verður áhugavert úrlausnarefni að sjá hvernig við getum tryggt, ef eftirspurnin verður slík, að þeir sem helst þurfa á þessu að halda sitji ekki eftir.

Ég nefndi áðan að aðgerðir af þessum toga þyrftu að vera einfaldar, skýrar og aðgengilegar. Í frumvarpinu sem við ræðum hér eru ráðherra veittar rúmar heimildir til að ákveða t.d. hvaða íbúðir teljist hagkvæmar varðandi stærðarmörk og verðmörk. Þar segir m.a. að íbúðir taki mið af herbergjafjölda miðað við stærð og þarfir fjölskyldu umsækjanda. Við vitum að þarfir fjölskyldna breytast og þær munu breytast á þeim tímum sem þeir umsækjendur sem við sjáum fyrir okkur nýta sér þetta úrræði. Með breytingum hefur vissulega verið komið til móts við þetta en það breytir því ekki að það er ekki einfalt og ekki skýrt hvaða sjónarmið munu standa að baki ákvörðun um þessi viðmið. Þau sjónarmið munu ekki endilega rata hingað inn á þing vegna þess að þau eru veitt í reglugerðarheimildum.

Ráðherra fær líka samkvæmt þessu máli mjög víðtækar heimildir til að veita undanþágu frá hámarki hlutdeildarlánanna, úr 20% upp í 30%, og undanþágu frá hámarkslánstíma annarra lána sem umsækjandi tekur til að fjármagna fasteignakaupin. Þetta er ekki mjög gegnsætt og ég myndi telja mikilvægt að nákvæmlega svona undanþáguheimildir fylgdu skýrum og gegnsæjum leikreglum og ég myndi frekar vilja sjá þær útskýrðar í lögunum sjálfum en í reglugerð sem enn hefur ekki verið gengið frá og Alþingi mun ekki taka afstöðu til. Það má líka bæta því við að staða verktaka sem standa að nýbyggingum með tilliti til þessa frumvarps verður óvissari í ljósi þess að aðeins verður lánað fyrir kaupum á nýjum íbúðum sem byggðar eru af byggingaraðilum sem hafa gert samning við Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Þetta skapar ákveðna óvissu og vekur upp spurningar um forsendur fyrir ákvarðanatöku og áhrifum þeirrar ákvarðanatöku á samkeppni á þessum markaði. Hvers vegna mega bara sumir reisa íbúðir sem úrræðið tekur til en ekki allir? Og hvernig eru þessir sumir valdir? Hvernig leggur hæstv. ráðherra til að regluumhverfi slíks samstarfs hins opinbera við tiltekinn hluta byggingarmarkaðarins verði háttað? Hverjir fá að byggja og á hvaða grundvelli? Aftur: Þetta á að útkljá í reglugerð.

Síðan er það þetta með skilyrði um sanngjarnar leikreglur, aðgerðir þar sem fullkomins jafnréttis gætir. Nú er það svo, eins og ég nefndi áðan og margoft hefur komið fram, að ríkisstjórnin gerir ráð fyrir að geta veitt lán til kaupa á 400–500 íbúðum á ári. En það er ekkert sem kemur fram í frumvarpinu um það hvernig valið verður á milli umsækjenda ef eftirspurnin fer fram úr þessum fjölda. Það er vissulega hægt að sækja um oftar en einu sinni á ári þannig að myndin verður kannski skýrari hverju sinni. En ef við miðum t.d. við áætlaða þörf á íbúðarhúsnæði um síðustu áramót er ekki ólíklegt að eftirspurnin verði einmitt meiri um sinn. Og hvernig leggur ráðherra til að valið verði á milli tveggja einstaklinga eða tveggja fjölskyldna sem báðar uppfylla öll skilyrði og þurfa á úrræðinu að halda, ef að því kemur að það þarf að velja? Spurningunni um hvernig tryggt sé að jafnræðis verði gætt er eiginlega enn ósvarað og ég geng út frá því að leitað verði í reglugerðir þar. En aftur komum við að því að lykilatriði sem lúta að þessu stóra máli heyra undir ráðherra sem getur útkljáð það í reglugerð án þess að það komi til kasta þingsins.

Mér finnst líka áhugaverð, og ég fagna því vissulega, sú breyting sem orðin er í meðförum þingsins um að eldri íbúðir á landsbyggðinni geti heyrt undir þetta úrræði. Eins og fram hefur komið í máli mínu oftar en einu sinni myndi ég vilja sjá þá breytingu ná yfir þéttbýlissvæðin líka af ýmsum ástæðum. Jafnréttið sem felst í þessu er ekki mikið, að þetta skuli eingöngu duga til íbúða á landsbyggðinni en ekki á höfuðborgarsvæðinu. Út frá þeim áhrifum sem úrræðið getur síðan haft til hækkunar fasteignaverðs mun það hafa áhrif á vaxtabætur í almenna stuðningskerfinu og kemur því fólki illa sem kaupir og þarf að kaupa án hlutdeildarlánanna. Þá er búið að skekkja þessi markaðssvæði líka. Þetta eru hugleiðingar og athugasemdir sem hefðu líka þurft að fá meira vægi.

Þá komum við aftur að tengslum þessa máls við þær greiningar sem liggja að baki úrræðinu, um hver þörfin sé, áhrifin á fasteignaverð og áhrifin á vaxtabætur eða önnur stuðningsúrræði hins opinbera á fasteignamarkaði. Við vitum það öll að afskipti hins opinbera eru heilmikil. Það er verið að niðurgreiða fasteignaverð til ýmissa hópa til lengri eða skemmri tíma. Síðan eru það áhrif úrræðisins á fjárhag þeirra sem nýta sér þetta til lengri eða skemmri tíma.

Þegar upp er staðið, og það er það sem ég vildi segja um þetta mál þegar það er komið til kasta þingsins í lokaafgreiðslu, finnst mér markmiðið mjög gott. En það eru mörg spurningarmerki við framkvæmdina eins og hún er lögð upp hér. Þessi inngrip í markaðinn sem verið er að festa í sessi með lögum, og ekki síður og jafnvel enn frekar með mjög rúmri reglugerðarheimild ráðherra, eru, eins og ég hef farið yfir, ekki endilega eins og ég hefði viljað sjá þau. En ég og félagar mínir í Viðreisn treystum á að stjórnvöld noti tímann fram að endurskoðun á málinu, hlusti á rökstudda gagnrýni sem fram hefur komið og mjög víða að. Það eru mjög margir aðilar sem styðja þetta mál vegna þess að markmiðið er gott. Þetta félagslega úrræði er gott og það er mikilvægt. En hægt er að búa svo um hnúta að það hafi helst eingöngu jákvæð áhrif á markaðinn. En þá þarf líka að rýna í og greina þau tölulegu gögn sem við höfum, hlusta á gagnrýni þeirra sem þekkja til og laga málið að því. Ég hef fulla trú á að það verði gert. Ég get ekki ímyndað mér annað en að hugur allra standi til þess að þetta úrræði líti ekki eingöngu vel út í byrjun heldur gagnist raunverulega fólki sem annars ætti ekki tök á að koma sér fyrir sem eigendur á fasteignamarkaði og nái því markmiði án þess að hafa neikvæð áhrif á markaðinn í heild sinni. Við höfum tækifæri til þess þannig að ég bíð og vonast til að sjá stjórnvöld nota tímann vel. Við í Viðreisn munum styðja þetta mál.