150. löggjafarþing — 134. fundur,  2. sept. 2020.

húsnæðismál .

926. mál
[18:28]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Þetta eru nefnilega mjög áhugaverðar vangaveltur. Það er ekki að ástæðulausu sem máltækið leiðinlega er til: Það er dýrt að vera fátækur. Þá er ekki átt við að það sé erfitt og vont þegar maður á ekki pening heldur að mörg úrræði sem standa tekjulágum til boða eru mjög dýr þegar upp er staðið. Það er bara þannig og við þekkjum það mjög mörg af eigin raun á einhverjum tímabilum lífs okkar.

Ég er alveg sammála hv. þingmanni um að þetta snýst um öryggi og er félagslegt úrræði til að aðstoða tekjulága við að koma eigin þaki yfir höfuðið sem þeir mögulega gætu ekki án þess eða mjög líklega. En ég lít svo á að hægt sé að gera hvort tveggja. Það er nú eiginlega málið. Það hefði verið hægt með öðruvísi nálgun að ýta einhvern veginn undir það að eignamyndunin kæmi fyrst og fremst til þeirra. Það er nú eiginlega nálgunin.

Varðandi það hvort þar af leiðandi sé ekki heppilegt að vera með nýtt húsnæði með minni viðhaldsþörf og annað slíkt. Málið er að þessi litla viðhaldsþörf í nýju húsnæði er reiknuð inn í verðið. Þess vegna er það oft að hluta til dýrara. Það er nú málið. Þá eru tekjulágir einstaklingar í þessu úrræði, sem er náttúrlega ekkert broslegt, eiginlega farnir að borga tvisvar fyrir það.

Þess utan þekkjum við það líka — og ég brosi út í annað því við hv. þingmaður höfum átt þessar samræður áður hér utan þingsalar — að það er oft ágætt að fjárfesta, ef maður hefur lítið á milli handanna, í íbúð sem þarfnast viðhalds. Sumt er hægt að láta eiga sig um tíma. Annað er hægt að gera á töluvert ódýrari hátt en verktakar gera og það er eitthvað sem við þekkjum öll. Þannig að ég myndi eiginlega frekar líta svo á að akkúrat það atriði ýti undir rökstuðning í hina áttina, að það ætti að útvíkka skilyrðið þannig að það næði til eldri íbúða.