150. löggjafarþing — 134. fundur,  2. sept. 2020.

húsnæðismál .

926. mál
[18:31]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svörin. Ég tek kannski upp boltann varðandi viðhaldið og þetta með nýjar eða notaðar íbúðir. Það er sannarlega eitthvað sem mætti þá athuga einmitt í fyrstu endurskoðun á lögunum. Ég get alveg tekið undir það með þingmanninum.

Þá að því sem þingmaðurinn nefndi með að þetta væri tiltölulega dýrt úrræði og að því leyti til væri eigandinn að láta ríkið í raun hafa hluta af sínum ávinningi með því að ríkið ávaxtar sinn hluta alltaf í samræmi við hækkun á eignaverði. En er það þá ekki þannig, hv. þingmaður, að ávöxtunin á hluta lántakandans í eigninni er að vissu leyti í skjóli eignarhlutar ríkisins? Þ.e. vegna þess að lántakandinn þarf ekki að hafa áhyggjur af þessum 20% sem sitja í eignarhlut ríkisins þá verður í rauninni, eins og þingmanninum hefur orðið tíðrætt um, eignarmyndun í „hans hluta“ í því skjóli. Þess vegna má kannski að sumu leyti segja að ákveðin snilld sé í því. Jú, vissulega þarf hann á endanum þegar íbúðin er seld að deila ávinningnum með ríkinu en hefði líklega ekki komist í þessi færi öðrum kosti. Það má svo sem alltaf með einhverju móti rökræða það.

Að lokum, herra forseti, varðandi áhrifin á markaðinn sem þingmaðurinn ræddi aðeins um: Er þingmaðurinn sama sinnis og ég, að líklega sé hættan á miklum áhrifum á markaðinn, ekki eins mikil? Þá kannski einkum og sér í lagi af því að við erum með þetta endurskoðunarákvæði inni þetta snemma.