150. löggjafarþing — 134. fundur,  2. sept. 2020.

húsnæðismál.

926. mál
[18:33]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður kemur með nokkuð góðan punkt um að restin af íbúðinni sé eignamyndun þess sem nýtur úrræðisins, eignamyndun sem verður til í skjóli þess að hann hafi fengið þessa félagslegu aðstoð. Það er bara hinn ágætasti punktur. (Forseti hringir.)

(Forseti (HHG): Forseti biðst velvirðingar, þetta var alveg óvart.)[Hlátur í þingsal.]

Ég þakka forseta fyrir. Það sem ég var kannski fyrst og fremst með í huga, og reyndi að koma að í andsvörum mínum við framsögumann málsins hér fyrr í dag, er að tölulegar greiningar, og það sem ég kom inn á í ræðu minni líka, sýna að þetta er svo mikið. Hækkunin hefur verið svo mikil að það væri kannski eðlilegt að innbyggja þak í þetta. Það er það sem ég er að velta upp. Það þarf ekki endilega að vera sjálfgefið að alveg óháð hækkun á fasteignaverði eða íbúðaverði þá fari það allt til baka til ríkissjóðs þannig að ég myndi vilja sjá einhvers konar millileið þar.

Þingmaðurinn spurði um endurskoðunarákvæðið. Ég er búin að fylgjast með umræðunni þar sem menn eru að tala um það fram og til baka af hverju ákvæðið kemur þarna inn, af hverju þetta er allt í einu orðið 2023 en ekki 2030. Ég átta mig heldur ekki á því nákvæmlega, það kemur ekki nægilega skýrt fram, líklegast vegna þess að það fór einhvern veginn í gegn hjá hv. velferðarnefnd hvað nákvæmlega á að endurskoða, hver er með boltann. En úr því að þetta er hérna inni þá get ég sagt að ég myndi telja mjög mikilvægt að nákvæmlega það sé notað til að fara vel í gegnum þá þætti. 2023 er skammt undan og það er mjög mikilvægt að það sé farið vel í gegnum gögnin og að við byggjum á grunni. Að því leytinu til líður mér betur að hafa þetta þarna inni þótt vissulega hefði verið hægt að fara í þá hluti án þess að endurskoðunarákvæðið sé endilega bundið í lög.