150. löggjafarþing — 134. fundur,  2. sept. 2020.

húsnæðismál.

926. mál
[18:36]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U):

Herra forseti. Það er sannarlega margt hægt að gera til að gera húsnæðismarkaðinn á Íslandi betri en hann er í dag. Hér er á borðinu hjá okkur úrræði til að auðvelda fólki með lágar tekjur að eignast þak yfir höfuðið. Þetta eru eðlileg viðbrögð við því að leigumarkaðurinn hefur alla tíð verið eitthvað sem fólk þarf að forðast vegna þess að það er mjög erfitt að vera á honum, bæði upp á húsnæðisöryggi að gera og greiðslubyrði af því að búa í leiguhúsnæði. Hér er komið til móts við það, gott og vel, samhliða því að við þurfum að byggja upp heilbrigðan leigumarkað.

Það slær mann samt dálítið, þegar þetta mál er tekið til umræðu, að það er eitthvert misræmi á milli þess sem menn segjast ætla að gera með frumvarpinu og þess sem síðan er raunverulega útfærslan í frumvarpinu. Við höfum séð það nú í sumar að úrræði sem hrint hefur verið í framkvæmd í framhaldi af kórónuveirufaraldrinum hafa mörg geigað og ekki náð því flugi sem þeim var ætlað. Það væri miður að ef þetta yrði eitt af þeim.

Svo ég setji aðeins skýrar í orð hvað ég á við þá langar mig að nefna hér dæmi um atriði sem búið er að taka úr frumvarpinu í breytingartillögu meiri hlutans og það er að skilyrða ráðstöfun séreignarsparnaðar, gera það eitt af skilyrðum þess að fólk komist inn í þetta úrræði. Bent er á það í ýmsum umsögnum, og ég gríp hér niður í umsögn BSRB, hversu fráleitt þetta er í ljósi þess að annars vegar sé málinu ætlað að ná utan um hóp fyrstu kaupenda sem geta verið með ágæta greiðslugetu en hafa átt erfitt með að brúa eiginfjárkröfu en hins vegar er tekjulágt fólk sem oft á erfitt með að standast greiðslumat og það er væntanlega ekkert með séreignarsparnað, má ekki sjá af 2% af launum sínum í séreignarsparnað. Þetta bendir til þess að ráðuneytið hafi verið að hugsa um einhvern annan hóp en frumvarpið á að ná til og dæmin eru svo sem fleiri.

Annað dæmi er síðan skilyrði sem enn er inni, um að lántaki þurfi að standast greiðslumat fyrir láni sem nemur 75% kaupverðs hjá einhverri fjármálastofnun. En þessa dagana er hámarkið á lánum lífeyrissjóða t.d. 70%. Hér er því væntanlega verið að stýra þeim sem fara í þetta úrræði til banka sem bjóða upp á hærri lán, sérstaklega fyrir fyrstu kaupendur, en þau lán eru gjarnan með óhagstæðari skilyrðum en 70% grunnlánin. Til þess að komast inn í þetta úrræði sem er ætlað að vera hagstæðara fyrir tekjulægri einstaklinga þarf það fólk því fyrst að standast greiðslumat fyrir óhagstæðara láni en það gæti fengið ef hámarkið væri t.d. hið sama og varðandi lífeyrissjóðslán, 70%.

Þá kemur það dálítið undarlega út, þegar maður les þetta mál saman við nokkrar umsagnirnar, hvernig samráði við lykilaðila virðist hafa verið háttað eða öllu heldur ekki háttað að ýmsu leyti. Ég nefni sem dæmi að Alþýðusambandið sjái það fyrst í frumvarpinu þegar það birtist hér á þingi að allt í einu eigi að vera einhver skýr tekjumörk þrátt fyrir að Alþýðusambandið hafi verið við borðið í vinnuhópi um húsnæðismál og verðtryggingu þaðan sem þetta mál er sprottið. Nú sýnist mér á umsögnum að aðilar hafi ekki verið í færum til að meta á þeim tíma sem gefinn var hvaða áhrif þessi tekjumörk hafa. En það er kannski ágætt að vísa til ræðu hv. þm. Helga Hrafns Gunnarssonar sem mælti fyrir áliti 2. minni hluta velferðarnefndar, sem benti akkúrat á að tekjumörkin þýddu væntanlega að þetta gæti orðið svona millitekjuúrræði, næði mögulega ekki þeim sem gætu verið í mestri þörf fyrir úrræðið.

Þá er rétt að líta líka á umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga sem bendir á að rökstuðning skorti fyrir þeirri tillögu meiri hluta velferðarnefndar að mæla fyrir um að 20% lána verði að vera utan höfuðborgarsvæðis. Samband íslenskra sveitarfélaga eru ekki einhverjir hatursmenn landsbyggðarinnar, þvert á móti. Þetta er samband allra íslenskra sveitarfélaga sem bendir á að eðlilegra væri að hafa þetta hlutfall sveigjanlegt. Sambandið er, reikna ég með, sammála því markmiði að uppbyggingin eigi sér stað um allt land en bendir bara á að eðlilegra væri að láta úrræðið laga sig að þeirri þörf sem er fyrir húsnæði, m.a. á grundvelli húsnæðisáætlunar sem sveitarfélögin gera.

Þetta færir mig síðan að því sem mér þótti einna undarlegast í ferð þessa máls í gegnum þingið. Það er sá snúningur sem var tekinn á milli tveggja ráðuneyta hér í síðustu viku þegar fjármálaráðuneytið sendi inn umsögn um málið. Þar segir að áhrifamatskafli félagsmálaráðuneytis sé ófullnægjandi. Þetta er fjögurra síðna umsögn, ef ég man rétt, þar sem fjármálaráðuneytið fer býsna hörðum orðum um þá vinnu sem félagsmálaráðuneytið hefur skilað hingað inn til þingsins. Ég man ekki eftir því að hafa séð það giska oft hér á þingi að ráðuneyti séu að togast á um grundvöll þingmála í formlegum umsögnum til þingnefnda. Lendingin varð sú, sem er kannski oft ágætislending þegar tveir aðilar deila, að ráðuneytin voru læst inni í herbergi í tvo daga og skiluðu síðan sameiginlegri umsögn til velferðarnefndar með tillögum að úrbótum sem bæði ráðuneyti gátu sætt sig við. En þetta fyllir mann ekki trausti á grundvöll málsins. Þetta ætti frekar að fá okkur til að hugsa hvort hér sé unnið of hratt og ekki vandað nóg til verka. Og hvað þá varðandi þær ófáu breytingar sem meiri hluti velferðarnefndar leggur til á málinu, t.d. að hækka áætluð framlög í úrræðið úr 4 milljörðum í 5 með því búa til einhvers konar óvissusvigrúm upp á 1 milljarð á ári sem eigi að ávaxta í einhvers lags varasjóði og eigi að þjóna einhverjum tilgangi. Það er ekki ljóst, af orðum þeirra sem hafa mælt fyrir þessu meirihlutaáliti, nákvæmlega hver sá tilgangur er en í nefndaráliti segir að tilgangurinn sé að girða fyrir þörf fyrir viðbótarfjárframlög í framtíðinni. Ég veit ekki hvort þetta veitir nógu skýra leiðsögn varðandi framkvæmdina þegar þar að kemur.

Eins og ég sagði í upphafi þá er markmiðið ágætt. En eins og oft vill verða á síðustu vikum og mánuðum þá læðist að manni sú tilfinning að framkvæmdin verði kannski ekki alveg upp á tíu þegar til kemur vegna þess að hér er ekki byggt á grundvelli nógu mikla greininga. Hér er ekki nægilega vel hlustað á það samráð sem birtist í umsögnum. Hér er bara látið vaða og sénsinn tekinn á því að þetta gangi allt upp. Hvort það gerir það þarf tíminn að leiða í ljós en það væri óskaplega leiðinlegt ef fólk sem þarf á úrræði af þessu tagi að halda geti ekki nýtt sér það vegna þess að hér hafi ekki verið vandað nóg til verks.