150. löggjafarþing — 134. fundur,  2. sept. 2020.

húsnæðismál.

926. mál
[20:08]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Halla Signý Kristjánsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og umfjöllun um málið, sem er náttúrulega sýn hans á það, að þetta sé allt ómögulegt og erfitt að komast inn í úrræðið. Auðvitað er það ekki fyrir hvern sem er að kaupa sér eign, alveg sama hvert úrræðið er. Það þarf alltaf að standast greiðslumat og við vitum að það getur verið svolítið erfitt. En þarna er komið til móts við fólk. Hlutdeildarlánið kemur í staðinn fyrir eigið fé sem kaupandi þarf annars að eiga.

Enn og aftur kemur fram sá misskilningur fram að þetta séu bara tíu ár. Við erum búin að heyra það svolítið oft í dag. Í breytingartillögunni segir:

„Hlutdeildarlán skulu endurgreidd við sölu íbúðarhúsnæðis eða að liðnum 10 árum frá lánveitingu. Þó er heimilt að framlengja lánstímann um fimm ár í senn, þó þannig að lán verði aldrei veitt til meira en 25 ára samtals. Skilyrði fyrir framlengingu lánstíma er að lántaki hafi sótt ráðgjöf Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um endurfjármögnunarmöguleika og framlengingu lánsins áður en lánstíma lýkur.“

Þetta er nokkuð skýrt. Þetta er eina skilyrðið. Og allar löngu ræðurnar sem búið er að halda í dag um að það sé ekki leyfilegt, að það sé bara háð einhverjum duttlungum lánveitandans, eru bara ekki á rökum reistar. Þannig að ég vil spyrja aftur: Er ekki nógu skýrt að þetta séu 25 ár? Ég kem kannski betur inn á það í seinni ræðu.