150. löggjafarþing — 134. fundur,  2. sept. 2020.

húsnæðismál .

926. mál
[20:11]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Halla Signý Kristjánsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þessi svör. Hv. þingmaður nefndi í ræðu sinni að í Bretlandi væri reynslan sú að fólk vildi fara fyrr úr úrræðinu en áætlað var að það gerði. Ég tel tíu ár þokkalegan tíma. Ég vil þá spyrja hv. þingmann: Hvaða meðaltíma telur hann raunhæft að miða við þar til fólk fer út úr úrræðinu? Eru það ekki svona tíu ár eða tólf og hálft ár? Skiptir það einhverju máli að það komi að þeim tímapunkti að farið verði yfir málið?

Í öðru lagi, þetta eru hagkvæmar íbúðir. Hvað telur hv. þingmaður því til fyrirstöðu að hægt verði að byggja hagkvæmar íbúðir um allt land, bæði á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni? Mikið hefur verið kallað eftir þessu úrræði. Er það ekki hvati fyrir verktaka til að byggja hagkvæmar íbúðir? Það hefur vissulega verið reyndin, alla vega í Bretlandi, að hægt var að gera það.