Bráðabirgðaútgáfa.

150. löggjafarþing — 134. fundur,  2. sept. 2020.

húsnæðismál .

926. mál
[20:13]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég svara því strax að ég yrði ofboðslega ánægður með það og myndi sætta mig fullkomlega við að lánið væri til 25 ára og að sest væri niður til að skoða hlutina einu sinni eftir 12 og hálft til 13 ár.

Við verðum að átta okkur á að til þess að byggja ódýrar íbúðir — ég hef nú komið að smíði og lærði smíði, þannig að ég veit að við gætum gert ýmislegt. Ég sá að í Svíþjóð var verið að byggja gámaíbúðir, hver gámurinn var bara settur ofan á annan. Það er örugglega mjög hagkvæmt. Og við vitum að það er líka hagkvæmt að byggja íbúðir þar sem er enginn óþarfi, ekki bílskúr og bílastæðin takmörkuð. Það er hægt að gera hlutina á ódýran hátt. Það er hægt að hafa innréttingar hræódýrar og gera allt á eins ódýran hátt og hægt er. Hvað þýðir það? Það þýðir að þegar fólk hefur það betra vill það fara út úr kerfinu vegna þess að kannski vill það bílskúr, kannski vill það búa annars staðar og hafa hlutina betri. Hvatinn er að fara út úr þessu.

Við verðum að gefa fólki tækifæri til að kaupa ódýrar íbúðir. En við verðum líka að átta okkur á því, ég segi það sjálfur og ég held að við getum öll sagt, að maður vill ekki vera í kerfinu endalaust. Þetta er nákvæmlega eins og að ætla að verða öryrki. Maður vill ekki verða öryrki. Maður vill komast út úr því kerfi. Ég tel að hvatinn til að fólk fari út verði alveg nægur. Þess vegna þurfum við ekki að setja upp allar þessar girðingar.

Til að koma í veg fyrir misskilning mun ég styðja þetta mál. Það verður jafn erfitt fyrir mig að styðja það og búsetuskerðingarnar, en ég mun gera það vegna þess að ég stend með þessu. En það eru bara öll þessi (Forseti hringir.) smáatriði. Ég vil hafa þetta einfalt, (Forseti hringir.) svo einfalt að það verði ekkert vandamál fyrir þá sem vilja fara inn í þetta kerfi að komast inn í það.