Bráðabirgðaútgáfa.

150. löggjafarþing — 134. fundur,  2. sept. 2020.

húsnæðismál.

926. mál
[20:15]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Það er nú líklega að æra óstöðugan að reyna að þrátta meira um lánstímann en þó held ég að ég neyðist til að gera það. Í nefndaráliti meiri hlutans stendur skýrt að endurgreiða skuli sölu íbúðarhúsnæðis að liðnum tíu árum frá lánveitingu. Síðan stendur reyndar: „Heimilt er að framlengja lánstímann um fimm ár í senn, þrívegis …“, en það er gert á grundvelli umsókna og þar verður farið yfir veðstöðu eigna, greiðslugetu lántaka og endurfjármögnunarmöguleika. Það má með öðrum orðum skilja það þannig að ríkur vilji sé til þess að hægt verði að framlengja. En ef flutningsmenn þessa nefndarálits hefðu ætlað að gera það skýlausan rétt lántakandans hefði orðið „skal“ þurft að standa í staðinn fyrir orðið „heimilt“, þ.e. heimilt að framlengja. Það verður auðvitað ekki skýrara.

Að öðru leyti er maður búinn að bíða talsvert lengi eftir því að fá að tala um mál er varðar úrræði af þessu tagi því að í stjórnarsáttmálanum stendur beinlínis að það sé eitt af forgangsmálum ríkisstjórnarinnar. Nú er ráðherra búinn að ganga með þetta frumvarp í maganum lengur en fílskýr gengur með fílskálf, sem eru um tvö ár, þannig að það er í sjálfu sér orðið tímabært. Við í Samfylkingunni fögnum því vegna þess að húsnæðismál hafa alltaf verið eitt af meginviðfangsefnum okkar. Við teljum að húsnæðisöryggi, óháð efnahag og félagslegri stöðu, sé forsenda jafnra tækifæra og almennrar velferðar. Öruggt húsnæði stendur nefnilega ekki og fellur með steinsteypu og bárujárni eða uppbyggingu og frágangi heldur er íbúðarhúsnæði fyrst og fremst rammi utan um heimili og einn af þeim hlutum sem eru nauðsynlegir til að fjölskyldur, í hvaða formi sem þær eru, geti upplifað öryggi og búið við heilbrigt heimilislíf.

Ég ætla ekki að fara ítarlega í einstök efni frumvarpsins. Það hefur hv. þm. Helga Vala Helgadóttir gert með ítarlegu nefndaráliti og afbragðsræðu. Ég ætla þó að fjalla aðeins um húsnæðismál vegna þess að þau hafa setið allt of lengi á hakanum og aðgerðir stjórnvalda í málaflokknum hafa einfaldlega ekki skilað nægilega góðum árangri. Ungt og efnalítið fólk hefur átt erfitt með að komast inn á húsnæðismarkaðinn og hefur þurft að velkjast um á ótryggum rándýrum leigumarkaði. Það er sérstakt áhyggjuefni hversu margar barnafjölskyldur eru í þeirri stöðu. Þær hafa gjarnan verið á hrakhólum, neyðst til að flytja, rífa börnin sín upp á milli skólahverfa og það eykur álag á börn og hjálpar þeim síður en svo á erfiðum þroskaferli. Það hefur heldur ekki verið nóg af félagslegum íbúðum hjá allt of mörgum sveitarfélögum fyrir þá allra efnaminnstu og það er hlutur sem þarf líka að taka á. Það þarf með einhverjum hætti að skilyrða lágmark félagslegra íbúða í hverju sveitarfélagi.

Sá hópur sem hefur lægstar tekjurnar í okkar samfélagi, en þó ekki nægilega lágar til að fá úthlutað félagslegu húsnæði, hefur þess vegna átt býsna erfitt með að fóta sig á þessum markaði. Þetta fólk var að stærstum hluta algjörlega yfirgefið af stjórnvöldum þegar verkamannabústaðakerfið var lagt niður af þáverandi ríkisstjórn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks. Það er ekki einu sinni nægilegt framboð af leiguhúsnæði eða hagkvæmum íbúðum fyrir fólk með meðaltekjur, hvað þá þessa hópa sem eru í veikustu stöðunni. Því er ljóst að okkar bíður feikilega stórt verkefni. Þrátt fyrir mjög góð skref við byggingu almennra leiguíbúða, sem hefur verið gert í samvinnu launþegahreyfinga og sveitarfélaga, hafa skrefin verið allt of stutt og allt of fá. Þess vegna fögnum við að sjálfsögðu hverju skrefi sem þó er stigið í átt að heilbrigðari húsnæðismarkaði og hverju tækifæri sem gefst til að fjalla um þetta brýna hagsmunamál hér á þingi. Því það er orðið, eins og ég sagði áðan, löngu tímabært að ráðast í markvissar aðgerðir til að aðstoða tekjulágt fólk til að kaupa sitt fyrsta húsnæði eða leigja eða að a.m.k. að tryggja betur húsnæðisöryggi viðkvæmra hópa. Það er hins vegar, frú forseti, hálfhjákátlegt að klæða þetta úrræði í búning sérstakra aðgerða vegna Covid. Húsnæðisvandi tekjulágra er ekki nýtilkominn og stafar ekki af þeim faraldri og var til kominn löngu áður en þær efnahagsþrengingar sem við nú erum að reyna skullu á. En ég giska á að frekar sé reynt að smella þessu inn með þessum hætti til að beina sjónum frá seinagangi ríkisstjórnarinnar í þessum málum. Þetta hefur tekið tæplega þrjú ár.

Það eru u.þ.b. tvö ár síðan Samfylkingin lagði fram aðgerðaáætlun í húsnæðismálum. Það var m.a. gert til að hvetja ráðherra til þess að vinna með hana eða a.m.k. að ýta á hann að klára sína. Við lögðum fram nokkur úrræði og eitt af þeim voru svokölluð startlán að norskri fyrirmynd. Þau eiga sérstaklega að aðstoða ungt fólk og fólk í viðkvæmum hópum. Þetta úrræði hafa Norðmenn notað til að bregðast við vanda þeirra sem eru að stíga sín fyrstu skref á húsnæðismarkaði og fá ekki úrræði á almennum lánamarkaði. En þau eru líka sérstaklega miðuð við að tryggja húsnæðisöryggi mjög afmarkaðra og viðkvæmra hópa á markaði og það er afar mikilvægt, þegar við erum að láta mikla peninga í úrræði af þessu tagi, að þetta beinist að rétta hópnum. Við lögðum einnig til að ráðist yrði í stórfellda uppbyggingu leiguíbúða á næstu árum þannig að fólk á leigumarkaði gæti komið fótunum undir sig á markaði sem væri rekinn af öðrum sjónarmiðum en hagnaðarsjónarmiðum. Við lögðum til að skyldur yrðu settar á sveitarfélög þegar kemur að félagslegu húsnæði með það að markmiði að útvega fólki um allt land íbúðir en einnig að jafna byrðar sveitarfélaga. Við lögðum til að húsnæðis- og vaxtabætur verði hækkaðar í samræmi við launaþróun og skerðingar yrðu minnkaðar og loks að byggingarreglugerðin yrði einfölduð og samræmd á við reglugerðirnar eins og þær eru annars staðar á Norðurlöndum. Það er eiginlega ótrúlegt, frú forseti, í umhverfi þar sem við erum meira og meira að ráðast í lausnir sem ganga út á að nota tilbúnar einingar, þegar annaðhvort er ekki hægt, eða það er 20–25% dýrara, að fá þær hingað, vegna þess að hurðarhæð er önnur og lofthæð önnur en kröfur eru gerðar um annars staðar á Norðurlöndum, það er beinlínis bjánalegt.

En við skulum snúa okkur að tillögu ráðherra um hlutdeildarlánin. Þau eru að enskri fyrirmynd. Ráðherra fór víða um álfuna, fyrst voru það norsk lán og svo voru það svissnesk lán og svo finnsk lán, en hann virðist hafa endað á enskum lánum. Auðvitað er frumvarpinu ætlað að auðvelda ungu og tekjulágu fólki íbúðakaup með veitingu hlutdeildarlána, eins og þau heita, til að geta klofið útborgun. Þetta er hluti af svokölluðum lífskjarasamningum og er mjög brýnt að við afgreiðum það hér og ég tek það fram að þrátt fyrir seinaganginn og þrátt fyrir að ég telji að ýmislegt sé að frumvarpinu held ég að það sé mikilvægt að afgreiða málið. En þetta er alls ekki neitt Covid-mál eins og látið hefur verið í veðri vaka. Það er eingöngu gert til að breiða yfir seinagang í málinu.

Þegar um er að ræða inngrip og stýringu stjórnvalda á húsnæðismarkaði af þessari stærðargráðu getur það einfaldlega haft miklar afleiðingar. Þess vegna skiptir sérstaklega miklu máli að lagasetningin öll sé mjög vönduð. Við í Samfylkingunni, eins og ég sagði áðan, styðjum frumvarpið en við teljum hins vegar að það sé einfaldlega ekki nógu vel unnið. Það er allt of mikið af þokukenndum útfærslum og ráðherra eru veittar allt of víðtækar heimildir til að útfæra skilyrði og undanþágur og aðra matskennda þætti sem ákjósanlegast væri að festa niður í frumvarpið sjálft. Það er, frú forseti, reyndar orðinn ótrúlegur plagsiður Alþingis að gefa eftir ákvörðunarvald sitt í máli eftir máli með lögum sem eru allt of einföld og þar sem allt er sett í hendurnar á ráðherranum, en það er efni í aðra umræðu. Það er bara erfitt að átta sig á því hvernig framkvæmdin verður með lánveitingunni vegna þess að það er margt svo óljóst í þessu. Dæmi um það hversu þokukennt þetta allt er er að einhver nefnd, eða væntanlega Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, á að byggja á reglugerð ráðherra og ákveða hvað telst til hagkvæmrar íbúðar án þess að skilgreining á því sé skrifuð inn í greinargerð í frumvarpinu svo nokkru nemi. Ég spyr þá, frú forseti: Er átt við að íbúðin sé hagkvæm fyrir viðkomandi fjölskyldu sem langar í hana? Er hún hagkvæm fyrir ríkissjóð? Verður lagt sérstakt mat á uppbyggingu húsnæðisins, gæði efna og annað slík með tilliti til viðhaldsþarfar yfir lánstímann? Verður horft til þess að hún sé miðsvæðis þannig að fólk þurfi ekki að eiga bíl? Það er fullt af svona hlutum sem ekki er hægt að leggja óskrifaða í hendurnar á Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Þetta hefði þurft að koma miklu skýrar fram í frumvarpinu.

Forsendur um röðun umsækjenda, ef umsóknir eru umfram fjárveitingar hverju sinni, eru allt of óljósar. Ég veit ekki upp á hvað það getur boðið. Það getur boðið upp á alls konar kapphlaup og skrýtið fyrirkomulag. Ég hef líka mínar efasemdir um að tilgreindur sé svona hár hluti, 20% lánanna, til landsbyggðarinnar. Það er reyndar dálítið merkilegt að það orð sé notað. Hvar byrjar landsbyggðin og hvar endar hún? Tilheyra Akranes, Reykjanesbær, Selfoss, sem eru allt gríðarleg vaxtarsvæði, svæði þar sem markaðsvirði er enn töluvert hærra en framkvæmdakostnaður, landsbyggð eða höfuðborg? Og ef það telst höfuðborg þá get ég bent á Akureyri. Þar er markaðurinn að mörgu leyti eðlilegur. Þar getur verktaki haft eitthvað fyrir sinn snúð fyrir að byggja og selja íbúð sem ekki er hægt á minni stöðum. Hér hefði verið miklu heppilegra að tala um svæði þar sem markaðsbrestur er eða vaxtarsvæði og köld svæði eða eitthvað slíkt en ekki að tala bara um landsbyggð.

Þá tek ég undir með þeim sem hafa gagnrýnt tekjuviðmið frumvarpsins og er full ástæða til þess. Við teljum einnig að það sé ótækt að kostnaðurinn við úrræðið skuli vera fjármagnaður með lækkun vaxtabóta upp á milljarð á ári án þess að það liggi nokkuð fyrir hver áhrifin af þeirri lækkun verða á kerfið sjálft eða aðra lántakendur. Það hefði verið miklu nærtækara að ráðast í greiningu á húsnæðisstuðningi stjórnvalda og endurskoðanir á vaxtabótakerfinu svo að það þjóni betur markmiði sínu og styðji raunverulega við þá hópa sem á þurfa að halda.

Þrátt fyrir allt þetta og meira til, sem hefur komið fram í ræðum fjölmargra þingmanna, munum við í Samfylkingunni styðja frumvarpið því að það skiptir máli að berjast fyrir og styðja allar aðgerðir sem lúta að því að auka húsnæðisöryggi fólks. Ég held að spurningin í þessum sal sé miklu frekar hvort allir þingmenn stjórnarflokkanna styðji málið en það er líka efni í aðra umræðu.

Rétt að lokum, frú forseti, varðandi breytingar meiri hlutans. Þar er ýmislegt forvitnilegt. Ég var búinn að nefna þetta með landsbyggð og hvernig það orð er notað án þess að það sé skilgreint nánar. Þar, á landsbyggðinni, er nefnilega heimild til að kaupa eldri byggingar til endurgerðar. Það tel ég vera gott ef það er fyrst og fremst hugsað á þeim svæðum þar sem ekki borgar sig fjárhagslega fyrir neinn að byggja nýja íbúð vegna þess að minna fæst fyrir hana en sem nemur framleiðslukostnaði. En þar sem þetta er ekki skilgreint nánar spyr maður sig: Hvað býr þarna undir? Getum við átt von á því að í nágrannasveitarfélögum hér, þar sem er blússandi uppgangur, ég nefni Reykjanesbæ, Akranes eða Selfoss, dúkki upp einhverjir sem eiga gömul fjölbýlishús, gamlar íbúðir, og flikki aðeins upp á þessar eignir og selji undir þessi úrræði? Ég held að það sé ástæða til að tekin verði smáumræða um það.