150. löggjafarþing — 134. fundur,  2. sept. 2020.

húsnæðismál.

926. mál
[20:43]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um húsnæðismál, hlutdeildarlán. Búið er að tala um það í sex klukkutíma, virðulegur forseti. Það er nú ekki miklu við það að bæta. Mér finnst merkilegt að hér tala margir illa um frumvarpið, tala það niður, en ætla svo allir að greiða atkvæði með því á eftir. Ég ætla að tala fallega um það og greiða atkvæði með því á eftir.

Það er margt, og nánast allt, mjög gott í frumvarpinu að mínu viti. Þetta er svona frumvarp sem er sjálfseignarstefna Sjálfstæðisflokksins, að hjálpa ungu fólki sem býr við kröpp kjör til að eignast eigið húsnæði. Í því birtist vegurinn í frumvarpinu, virðist mér. Í núverandi fjármálaumhverfi þar sem vextir eru ótrúlega lágir, búið að afnema stimpilgjöld, og landið mun rísa úr sæ, þá er þetta gott innlegg í sjálfseignarstefnu Sjálfstæðisflokksins í húsnæðismálum.

Virðulegi forseti. Það er nánast búið að segja allt það sem ég ætlaði að segja hér og mér finnst óþarfi að ég verði áttundi þingmaðurinn til að endurtaka það sem allir hinir hafa sagt. Ég vona að frumvarpið verði samþykkt og það leiði gott af sér.