150. löggjafarþing — 134. fundur,  2. sept. 2020.

húsnæðismál .

926. mál
[20:51]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta velfn. (Helga Vala Helgadóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur kærlega fyrir yfirferð hennar og ræðu. Ég sem jafnaðarmanneskja fagna því að sjálfsögðu heils hugar að úrræði, sem liðka á til fyrir landsmönnum svo þeir geti keypt sér íbúðir og liðka til fyrir efnaminna fólki svo það geti keypt sér íbúðir um allt land, standi öllum landsmönnum til boða.

Það sem ég hefur örlitlar áhyggjur af er að í breytingartillögum meiri hluta er ekki gerður greinarmunur á stöðum eins og Raufarhöfn og t.d. Selfossi, eins og hv. þingmaður nefndi. Talað er um landsbyggðina annars vegar og svo um allt svæðið utan höfuðborgarsvæðisins, þegar kemur að því að endurnýta eldri íbúðir. Ég hefði haldið að við þyrftum að styðja sérstaklega við köld svæði, þau svæði þar sem ekki hefur verið nein uppbygging íbúða. Það hefur einmitt verið talað um að þetta sé líka til að örva uppbyggingu íbúða á köldum svæðum.

En ég held að við getum verið sammála um það, við hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir, að svæðið í kringum höfuðborgarsvæðið, Selfoss, Reykjanesbær, sem og t.d. Akureyri geta varla talist vera svæði þar sem engin uppbygging á fasteignum hefur átt sér stað, eins og reyndin er á þeim svæðum sem flokkast sem hin köldu svæði. Þess vegna þykir mér pínulítið óréttlátt að íbúar á Raufarhöfn sitji við sama borð og íbúar á þessum svæðum, ef það er sérstaklega verið að styðja við (Forseti hringir.) uppbyggingu á landsbyggðinni.