Bráðabirgðaútgáfa.

150. löggjafarþing — 134. fundur,  2. sept. 2020.

húsnæðismál .

926. mál
[20:54]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að þetta séu óþarfar áhyggjur hjá hv. þingmanni. Úrræðið er komið til að vera og við þurfum bara að sjá hvernig reynslan af því verður til að meta hvort greina þurfi sérstaklega þau svæði þar sem misvægi er á milli markaðsverðs og byggingarkostnaðar. Komi í ljós að þessi svæði, sem við getum kallað köld svæði, verði eftir sem áður út undan þurfum við að taka sérstaklega á því. Ég ætla ekki að gefa mér fyrir fram að svo verði. En ef það verður þá verðum við að taka á því.

Ég held að það séu óþarfa fyrir fram áhyggjur því að auðvitað er þetta úrræði eins og öll önnur, það þarf alltaf að koma reynsla á hvernig það gengur upp. Kannski verður það mjög mismunandi á milli ára. Kannski mettast ákveðin svæði og það verður sveigjanleiki og hreyfanleiki á milli svæða. En ég held að ekki sé hægt að dæma það fyrir fram, ekki fyrr en við erum búin að sjá a.m.k. tvö til þrjú ár af úrræðinu og hvernig það á eftir að þróast.