150. löggjafarþing — 134. fundur,  2. sept. 2020.

pakkaferðir og samtengd ferðatilhögun.

993. mál
[21:01]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Ásmundur Friðriksson) (S):

Virðulegi forseti. Ég flyt hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun, nr. 95/2018, með síðari breytingum, framlenging, frá atvinnuveganefnd.

Frumvarpið hljóðar svo:

„1. gr. Eftirfarandi breytingar verða á ákvæði til bráðabirgða í lögunum:

a. Í stað dagsetningarinnar „31. júlí 2020“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: 30. september 2020.

b. Lokamálsliður 2. mgr. fellur brott.

c. Í stað dagsetningarinnar „1. september 2020“ í 1. málsl. 10. mgr. kemur: 1. nóvember 2020.

2. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Ég ætla rétt að tæpa á greinargerðinni, virðulegur forseti. Það liggur öllum mikið á og maður er beðinn um að flýta sér. Í greinargerðinni segir m.a.:

„Frumvarp þetta er samið í samráði við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið. Með frumvarpinu er lögð til breyting á lögum um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun, nr. 95/2018, þess efnis að lögbundinn frestur seljenda pakkaferða til að sækja um lán úr Ferðaábyrgðasjóði verði framlengdur um tvo mánuði. Eftir sem áður þarf Ferðamálastofa að taka afstöðu til umsókna eigi síðar en 31. desember 2020 en það tímamark miðast við þær tímabundnu heimildir til ríkisaðstoðar sem veittar hafa verið af Eftirlitsstofnun EFTA og starfsemi sjóðsins grundvallast á.

Þá er með frumvarpinu lagt til að það tímabil sem seljendur pakkaferða geta sótt um lán til Ferðaábyrgðasjóðs til að standa við endurgreiðslukröfur gagnvart neytendum samkvæmt lögum um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun vegna afbókaðra og aflýstra pakkaferða verði framlengt um tvo mánuði. Samhliða er heimild ráðherra til að framlengja tímabilið með reglugerð felld brott.“

Í niðurlagi greinargerðarinnar segir, virðulegur forseti:

„Frumvarp þetta snertir hagsmuni bæði neytenda og seljenda pakkaferða sem eru með leyfi til ferðaskrifstofureksturs samkvæmt 7. gr. laga um Ferðamálastofu, nr. 96/2018. Frumvarpið felur í sér tillögu um að seljendur pakkaferða geti sótt um lán úr Ferðaábyrgðasjóði vegna endurgreiðslukrafna neytenda vegna ferða sem er aflýst eða eru afbókaðar vegna óvenjulegra og óviðráðanlegra atvika. Með frumvarpinu er ekki tekin afstaða til einstakra ferða heldur er almenn heimild seljenda pakkaferða til að sækja um lán vegna slíkra ferða framlengd. Bráðabirgðaákvæði um Ferðaábyrgðasjóð felur ekki í sér mat á því hvenær endurgreiðsluskylda samkvæmt lögum um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun er til staðar.

Í fjáraukalögum fyrir árið 2020, samanber lög nr. 36/2020, sem samþykkt voru á Alþingi hinn 29. júní 2020 er fjármála- og efnahagsráðherra veitt heimild til að leggja fram allt að 4,5 milljarða kr. til Ferðaábyrgðasjóðs.

Í lok ágústmánaðar höfðu borist 32 umsóknir um endurgreiðslur að fjárhæð tæpir 2,4 milljarðar kr. Að mati ráðuneytisins er því ljóst að framlenging tímabilsins ætti að rúmast innan þeirra fjárheimilda sem lagt var upp með að veittar yrðu úr sjóðnum, eða allt að 4,5 milljarðar kr., þegar litið er til þeirra umsókna sem þegar hafa borist sjóðnum og þeirrar staðreyndar að fram komnar umsóknir ná yfir það tímabil þegar áhrif heimsfaraldurs kórónuveiru á framkvæmd pakkaferða voru hvað mest. Fari svo að umsóknir um endurgreiðslur verði umfram þá fjárhæð þarf að mæta því með viðbótarfjárveitingu.“