150. löggjafarþing — 134. fundur,  2. sept. 2020.

húsnæðismál .

926. mál
[21:39]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Málið verður án efa til einhvers gagns. Hvort það mun endilega ná til allra þeirra sem þurfa á því að halda held ég að sé nokkuð ljóst að verður ekki. Það eru einkum tveir hópar sem bítast um þetta, þeir sem eru fastir í láglaunastörfum eða eru með lágar tekjur til lengri tíma, eins og öryrkjar o.s.frv., og hópur sem er tímabundið í þessari stöðu og fellur inn í þetta, þ.e. 3.000–5.000 nýnemar á hverju einasta ári. Gott og vel ef þeir koma líka inn í þetta, en hér er ekki verið fókusera sérstaklega, endilega og aðallega á þá sem mest þurfa á þessu að halda.

Varðandi landsbyggðardæmið. Fram kom í nefndinni að þau 20% sem festa á á landsbyggðinni, verða ekki bara á landsbyggðinni heldur á köldum svæðum á landsbyggðinni. Ráðuneytið kom inn á að það gæti verið bjarnargreiði að styðja við uppbyggingu á þessum svæðum því að eignir yrðu verðminni af því að þetta væru köld svæði og eftirspurnin því minni, eignin yrði minni miðað við hvað það kostaði að byggja hana. Sem þýðir að þetta er bjarnargreiði við þá sem nýta úrræðið þar. Jafnframt lagðist Samband íslenskra sveitarfélaga gegn þessari nálgun. En þetta var greinilega þvingað fram af meiri hluta nefndarinnar. Ég vildi að það kæmi skýrt fram.