150. löggjafarþing — 135. fundur,  2. sept. 2020.

breyting á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru.

972. mál
[22:08]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég get tekið undir að úrræðin sem verið er að leggja til eru öll til bóta. En ég vil spyrja hv. þingmann: Hvers vegna vilja ríkisstjórnin og stjórnarliðar ekki bæta hag þess hóps sem hvað verst er staddur og er atvinnulaus? Samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun fengu um 12.000 manns ekki tekjutengdar atvinnuleysisbætur og þurfa að framfleyta sér og fjölskyldum sínum á 289.510 kr. fyrir skatt, eða rétt um 240.000 kr. eftir skatt. Ég bið hv. þingmann um skýrt svar við þessu: Hvers vegna skilja stjórnarliðar þann hóp eftir sem hvað verst er settur? Hver er ástæðan? (LRM: Hvaða hóp?) Þann hóp sem er kominn á grunnatvinnuleysisbætur, 12.000 manns sem fengu grunnatvinnuleysisbætur í ágúst. Þeir eru skildir eftir. Það er ekki stafkrókur um að bæta kjör eða stöðu þess hóps. Hvers vegna er hann skilinn eftir? Ég bið hv. þingmann að gefa mér skýr svör.