150. löggjafarþing — 135. fundur,  2. sept. 2020.

breyting á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru .

972. mál
[22:12]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ástandið á Suðurnesjum mun ekki batna við heimsókn hæstv. félagsmálaráðherra sem getur ekki einu sinni ákveðið hvorum megin við helgina hann ætlar að fara í heimsókn. Hv. þingmaður segir að það sé svo dýrt að hækka grunnatvinnuleysisbæturnar. Ef farið yrði að tillögum Samfylkingarinnar myndi það kosta milljarð á árinu 2020 og innan við 4,5 milljarða á árinu 2021. Það eru peningar sem væru mjög til hagsbóta fyrir þann stóra hóp sem á í miklum vanda. Það yki líka eftirspurn í hagkerfinu því að þetta fólk á engan aur og færi með peningana út í búð til að kaupa sér mat eða nauðsynjavörur. Til samanburðar, hv. þingmaður, þá hikuðuð þið ekki við að lækka varanlega bankaskatt um 11 milljarða. Ég gæti talið upp fleiri dæmi. (Forseti hringir.) Það er fullkomlega óásættanlegt að þingmaður Vinstri grænna standi hér (Forseti hringir.) og segi að það sé svo dýrt (Forseti hringir.) að bæta hag fólksins sem verst er statt. Og enga vinnu er að fá. Þetta er til skammar, herra forseti.