150. löggjafarþing — 135. fundur,  2. sept. 2020.

breyting á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru .

972. mál
[22:13]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er alveg hægt að segja að það sé dýrt. Það er allt dýrt og þess vegna þarf að forgangsraða. Enginn hér, hvorki ég né aðrir, neitar því að það er erfitt að lifa á atvinnuleysisbótum. Við þekkjum öll að það er ekki há framfærsla. En það er spurning hverju það skilar að hækka atvinnuleysisbætur um 30.000–40.000 kr. Myndi það leysa allan vanda? Ég held að vandinn sem við stöndum frammi fyrir í þessu ástandi sé miklu dýpri en það, og ekki hægt að kenna einum eða neinum um það. Ég myndi telja að félagsmálaráðherra og Vinnumálastofnun væru velkomin á Suðurnes til að ræða við heimamenn um ástandið.

Við þurfum öll að vinna saman og ekki yfirbjóða hvert annað. Við erum að reyna að forgangsraða og leita leiða til að vinna að þessum málum og því höldum við áfram, saman, öll sem eitt, (Forseti hringir.) sama hvar í flokki við stöndum.