150. löggjafarþing — 135. fundur,  2. sept. 2020.

breyting á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru .

972. mál
[22:22]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta velfn. (Helga Vala Helgadóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir ræðu hennar og kynningu á ákvörðunum meiri hluta hv. velferðarnefndar. Ég vil halda áfram með málið sem var rætt hér, þ.e. er laun einstaklinga sem sæta sóttkví. Það er rétt sem kom fram í máli hv. þm. Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur að þessu máli var í vor vísað til félagsmálaráðuneytis að skoða sérstaklega, þ.e. erfiða stöðu foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna sem óhjákvæmilega geta ekki sinnt störfum sínum vegna þess að þjónusta liggur niðri eða vegna lokunar á leik- og grunnskólum eða frístundaheimilum barna vegna smita sem ekki má rekja til barnanna sjálfra heldur til starfsmanna eða annarra sem þar eru.

Hæstv. ráðherra svaraði kalli velferðarnefndar á sínum tíma því að hann treysti sér ekki til að taka á málinu vegna flýtis. Fjórum mánuðum síðar úthlutaði hann til þessa hóps fjármunum á bilinu 25.000–33.000 kr., til foreldra barna fyrir þriggja mánaða fjarveru frá störfum. Ég held að öllum sé ljóst að það er ekki í neinu samræmi við þau lög sem við erum að tala um varðandi einstaklinga sem og foreldra barna. Við skulum hafa það alveg á hreinu. Lögin kveða líka á um að foreldrar barna sem þurfa að sæta sóttkví eigi rétt á launum. Þess vegna vil ég spyrja: Fyrst hv. þingmaður er sammála um að það verði að gera eitthvað fyrir þennan hóp, treystir hv. þm. Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, Lilja Rafney Magnúsdóttir, sér til að styðja hann, verja hann gegn fátækt og verja foreldranna gegn atvinnumissi, með því að styðja breytingartillögu 2. minni hluta sem snýr einmitt að því að hleypa þessum einstaklingum inn? (Forseti hringir.) Fyrir Alþingi liggur breytingartillaga sem greidd verða atkvæði um á morgun.