150. löggjafarþing — 135. fundur,  2. sept. 2020.

breyting á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru .

972. mál
[22:24]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hef ekki kynnt mér þessa breytingartillögu. Það kemur bara í ljós hvernig hún lítur út og hvort það sé skynsamlegt að vinna að henni í heildarendurskoðun til að fá niðurstöðu sem heldur til lengri tíma. Þetta þarf að vinna þannig að það nái örugglega utan um þennan hóp. Hann getur verið fjölbreyttur og aðstæður mjög ólíkar þótt hann eigi það sameiginlegt að þarna séu viðkvæmir einstaklingar, langveik börn. Það geta samt verið mjög mismunandi aðstæður þarna á ferðinni sem þarf að skoða.

Ég treysti því að félagsmálaráðuneytið og þeir hagsmunaaðilar sem þekkja best til málaflokksins, þeir sem eiga hlut að máli, séu að vinna þá vinnu sem var kallað eftir að færi af stað. Ég tel mjög mikilvægt að tíminn þar til þing kemur saman aftur 1. október sé notaður til að gera enn betur. Mér finnst engin ástæða til að gera lítið úr því sem gert var, að leggja til að greiða hluta af þeim umönnunarbótum sem viðkomandi eiga rétt á. En það er hægt að gera betur og það er líka hægt að hafa slíkt afturvirkt ef því er að skipta. Það er ekkert sem mælir á móti því. En ég held að það sé verk að vinna og það þarf líka að vanda vel til verka eins og ég og hv. þingmaður viljum báðar tvær.