150. löggjafarþing — 135. fundur,  2. sept. 2020.

breyting á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru .

972. mál
[22:26]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta velfn. (Helga Vala Helgadóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það liggur fyrir að umsóknir um greiðslu launa í sóttkví eru umtalsvert færri en áætlað var. Kostnaðarmat með úrræðinu hljóðaði upp á 600–700 millj. kr. í vor en ljóst er að raunkostnaður er mun minni, eða 190 millj. kr. Það er því búið að gera ráð fyrir umtalsvert meiri fjármunum í þetta verkefni.

Hv. þingmaður talaði mikið um að málið væri flókið, að hún hefði ekki kynnt sér þær breytingartillögur sem liggja fyrir. Hún er þó framsögumaður málsins þannig að ég hvet hana til dáða að kynna sér þær. Þar er verið að tala um, svo ég leyfi mér að lesa upp úr breytingartillögu, að við sóttkvíarlögin bætist heimild sem hljóðar svo:

„Heimilt er að greiða atvinnurekanda launakostnað ef launamaður hefur ekki getað sinnt vinnu að öllu leyti eða að hluta vegna sóttvarnaráðstafana sem leiðir til skerðingar á þjónustu eða lokunar skóla barns í hans forsjá undir 18 ára aldri sem þiggur þjónustu á grundvelli laga um þjónustu við fatlað fólk (Forseti hringir.) með langvarandi stuðningsþarfir og það hafi ekki sætt sóttkví …“ — þ.e. barnið sjálft. — „Um greiðslur (Forseti hringir.) fer eftir því sem nánar er mælt fyrir um í lögum þessum.“

Af því að við vitum að hámarksgreiðsla fyrir laun (Forseti hringir.) í sóttkví eru 633.000 kr., hámark 21.000 kr. á dag, sem er u.þ.b. sú fjárhæð (Forseti hringir.) sem hæstv. félags- og barnamálaráðherra treystir sér til að borga fyrir þriggja mánaða fjarveru þessara foreldra úr starfi.