150. löggjafarþing — 136. fundur,  3. sept. 2020.

biðlistar í heilbrigðiskerfinu.

[10:40]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Ég vil segja það almennt að eftir því sem þessu ári vindur fram verður okkur sífellt betur ljóst að allt sem var erfitt fyrir verður erfiðara í Covid. Það gildir einu hvort um er að ræða fátækt, erfiðar félagslegar aðstæður, geðheilbrigðismál, sálfélagslegar áskoranir o.s.frv. Krakkar sem voru í vandræðum fyrir eru í enn meiri vandræðum. Fólk sem glímdi við vanda fyrir er í enn meiri vanda. Við erum að stíga fjölmörg skref og höfum verið að gera það í fjáraukanum sem hefur þegar verið samþykktur. Á mínu málasviði fara til að mynda sérstakar nýjar 540 millj. kr. á þessu ári til geðheilbrigðismála um allt land. Við erum þar að tala um að bæta við sálfræðingum í heilsugæsluna og að styðja við geðheilsuteymin um allt land af því að það skiptir máli að landið allt sé undir.

Ég hef spurt sérstaklega eftir því sem hv. þingmaður talar um hér varðandi sjálfsvíg. Þar erum við komin með nýjar tölur en þó ekki endanlega staðfestar frá embætti landlæknis. Allir þeir aðilar sem koma að þeim málum funduðu í gær til að kanna hvort hægt sé að styrkja enn frekar forvarnir og varnir í þessum alvarlega málaflokki. En ég get fullvissað hv. þingmann um að þetta er mér mjög ofarlega í huga og sérstaklega þau mál sem lúta að börnum og ungmennum, fíknivanda og geðheilbrigðismálum.