150. löggjafarþing — 136. fundur,  3. sept. 2020.

skimun á landamærum.

[10:44]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég vil víkja hér aðeins að ályktun sem Samtök atvinnurekenda á Reykjanesi sendu frá sér um mánaðamótin og varðar lokun landamæra og aukið atvinnuleysi. Ályktunin var send þingmönnum Suðurkjördæmis, forsætisráðherra og fjármálaráðherra. Ég vona að forsætisráðherra hafi lesið ályktunina, en samtökin segja hér, með leyfi forseta:

„Erfitt ástand er í þjóðfélaginu og í heiminum öllum um þessar mundir vegna Covid-19. Íslendingum hefur samt gengið nokkuð vel að ná tökum á faraldrinum og í raun svo vel að eftir því er tekið út fyrir landsteinana. Jafnframt hefur ríkisstjórn Íslands séð ástæðu til þess að setja af stað markaðsátak til að kynna þann góða árangur með það að markmiði að hvetja erlenda ferðamenn til að ferðast til Íslands. Frá upphafi faraldursins hefur sóttvarnalæknir talað fyrir því að í raun og veru séu það Íslendingar sem séu líklegastir til þess að bera smit inn í landið. Erlendir ferðamenn séu ekki líklegir til að smita mikið, enda ekki í jafn nánum samskiptum inn í samfélagið. Jafnframt hefur sóttvarnalæknir talað fyrir því að það sé ekki markmið út af fyrir sig að fá engin smit inn í landið, heldur getum við búist við smitum af og til á meðan faraldurinn geisar á heimsvísu.“

Síðan segja samtökin:

„Óhætt er því að segja að sú kúvending sem varð á stefnu stjórnvalda hvað varðar frjálsa för fólks til og frá landinu hafi komið flatt upp á marga. Ákvörðun um að loka nánast landinu með því að skylda alla í tvær skimanir og sóttkví virðist hafa verið tekin án samráðs við atvinnulífið í landinu og án þess að lagðir hafi verið fram útreikningar og rökstuðningur fyrir þeirri ákvörðun.“

Ég vil því spyrja hæstv. forsætisráðherra í tengslum við ályktun samtakanna: Hefði ekki verið hægt að velja mildari útfærslu á skimun á landamærum án þess að loka fyrir flæði ferðamanna með svo íþyngjandi sóttvörnum? Þetta kemur fram í ályktun samtakanna.