150. löggjafarþing — 136. fundur,  3. sept. 2020.

skimun á landamærum.

[10:46]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Eins og hv. þingmaður þekkir hafa markmið stjórnvalda frá upphafi faraldurs verið skýr. Þau hafa verið að vernda líf og heilsu Íslendinga og þeirra sem hér búa og fækka þeim sem fá þessa hættulegu veiru eins og mögulegt er og um leið að lágmarka samfélagsleg og efnahagsleg áhrif. Þegar við horfum til allra okkar aðgerða þá er það í fyrsta lagi þannig að sóttvarnaráðstafanir á Íslandi hafa verið minna íþyngjandi en í velflestum þeim löndum sem við berum okkur saman við, þar sem börn hafa verið lokuð inni vikum saman, þar sem beitt hefur verið lögregluvaldi til að fylgjast með því að fólk hlíti sóttvarnaráðstöfunum og þar sem beinlínis hefur verið beitt útgöngubanni. Þetta höfum við ekki gert heldur höfum við í öllum okkar aðgerðum gengið fram með þeim hætti að við séum ekki að fara of langt inn á réttindi fólks.

Aðgerðir á landamærum núna sem hv. þingmaður vísar í — mér er kunnugt um þessa ályktun og fékk hana senda eins og hv. þingmaður nefndi — eru í beinu framhaldi af þeim gögnum og þeim rannsóknum sem við höfum byggt okkar ákvarðanir á og voru að mati sóttvarnalæknis besta ráðstöfunin til að koma í veg fyrir frekari smit. Við sjáum það til að mynda í þeim smitum sem við erum enn að eiga við hér innan lands og bara í morgun komu fréttir af lokun útibús Landsbankans í Breiðholtinu vegna smits. Það tengist afbrigði veiru sem að öllum líkindum hefur borist hingað yfir landamæri. Það er svo. Þannig að aðgerðir stjórnvalda á landamærum eru í beinu framhaldi af þeirri reynslu, þeirri þekkingu og þeim gögnum sem við höfum aflað okkur.

Við fórum í raun og veru ótroðnar slóðir þegar við tókum upp skimun á landamærum. Á þeirri reynslu byggðum við það að taka upp heimkomusmitgát og tvöfalda skimun fyrir þá sem hér búa. Nú stendur yfir í raun og veru það ástand að það er tvöföld skimun og sóttkví. (Forseti hringir.) Við munum síðan, þegar reynsla er komin á þessa aðferðafræði, meta hvort hægt sé að breyta þessum aðgerðum með ívilnandi hætti.