150. löggjafarþing — 136. fundur,  3. sept. 2020.

skimun á landamærum.

[10:48]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra svarið. Auðvitað er ýmislegt sem þarf að meta heildstætt í þeim ákvörðunum sem ríkisstjórnin hefur tekið varðandi landamærin og skimun og annað sem tengist því að sjá til þess að veiran berist í sem minnstum mæli hingað til landsins. Samtök atvinnurekenda á Reykjanesi segja í lok ályktunar sinnar að þau telji að hægt hefði verið að skima alla, og jafnvel tvisvar, en láta duga að setja Íslendinga í sóttkví. Að mörgu leyti er ég sammála því og ef þær ráðstafanir bæru ekki tilætlaðan árangur hefði á seinni stigum alltaf verið hægt að herða sóttvarnir í takt við þær reglur sem nú eru í gildi. Ég vil kannski fá álit hæstv. forsætisráðherra á þessu.

En horfum til þess að eftir gjaldþrot WOW air og svo á ný eftir veirufaraldurinn er atvinnuleysi að stóraukast í landinu. Það stefnir í að verða um 10% á landsvísu (Forseti hringir.) um áramótin. Það stefnir í 20% á Reykjanesi. (Forseti hringir.) Við horfum fram á mjög alvarlegt ástand þannig að nauðsynlegt er að meta málið heildstætt hvað þetta varðar.