150. löggjafarþing — 136. fundur,  3. sept. 2020.

skimun á landamærum.

[10:50]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég vil segja þrennt sem svar við fyrirspurn hv. þingmanns. Í fyrsta lagi spyr hv. þingmaður hvort ekki hefði verið betra að gera minna en meira og herða þá síðar. Það lá algjörlega fyrir þegar við hófum þá vegferð að ráðast í skimun á landamærum, þar sem við vorum vissulega, eins og ég nefndi áðan, að feta ótroðnar slóðir þannig að eftirtekt hefur vakið víða um heim, og kom m.a. algerlega skýrt fram í máli mínu að ef við yrðum í þeirri stöðu að sjá smit berast yfir landamæri og næðum ekki tökum á þeim innan lands yrði gripið inn í með afgerandi hætti. Það er það sem gert var 19. ágúst. Það var gripið inn í með afgerandi hætti því að það var okkar mat, sem byggði m.a. á valkostum sóttvarnalæknis en líka ýmsum öðrum þáttum, að skynsamlegra væri að grípa inn í með hörðum aðgerðum og einfaldara að slaka á þeim síðar.

Hvað varðar Suðurnesin vil ég segja að það er mjög mikilvægt að við lítum sérstaklega til stöðunnar þar. Ég mun eiga fund með bæjarstjórum á Suðurnesjum í næstu viku þar sem við munum fara yfir þessa stöðu. Ríkisstjórnin hefur þegar veitt ákveðinn fjárstuðning (Forseti hringir.) vegna þeirrar erfiðu stöðu sem þarna er og ég held að við munum þurfa að horfa á fjölbreyttar lausnir þegar kemur að því að bæta atvinnuástand.

Að lokum vil ég nefna, herra forseti, (Forseti hringir.) að áhugaverð könnun birtist í gær sem sýnir mjög eindreginn stuðning við þær aðgerðir sem stjórnvöld hafa gripið til, m.a. á landamærum.