150. löggjafarþing — 136. fundur,  3. sept. 2020.

efnahagsráðstafanir.

[10:51]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Við í Viðreisn héldum opinn fund eða streymdum áherslum okkar varðandi fjármálastefnuna á blaðamannafundi áðan þar sem við tókum fram að við hefðum stutt margar aðgerðir ríkisstjórnarinnar. Við höfum lagt áherslu á að styðja það sem gott er, ekki bara út frá því hvaðan það kemur, og sérstaklega þær aðgerðir sem halda utan um fólkið, heimilin og fyrirtækin. Nú horfum við fram á, og ég er ekki að skamma ríkisstjórnina, að ákvarðanir ríkisstjórnarinnar um lokun munu hafa í för með sér meiri og erfiðari efnahagslegar afleiðingar en menn sáu fyrir, ekki síst með tilliti til atvinnuleysis.

Við í Viðreisn leggjum áherslu á að það er dýrkeypt að bíða. Það er mjög dýrkeypt fyrir þjóðina, fyrir heimilin og fyrirtækin að bíða með ákvarðanir. Og út frá því sem kemur fram í allri meðferð varðandi fjármálastefnuna, umsögn fjármálaráðs og spá Seðlabankans, er alveg ljóst að við erum að glíma við tímabundinn vanda. Þá þýðir ekki að koma með fögur fyrirheit, sem er í sjálfu sér virðingarvert, einhvern tímann á árunum 2022 eða 2023. Það þarf að horfast í augu við vandann núna á árunum 2020 og 2021 — spáð er allt upp í 10% atvinnuleysi, sem er hugsanlega 30.000 manns, fyrirtæki fara á hausinn — til þess að við getum veitt fólkinu einhverja von og vissu á þessum erfiðu tímum.

Þess vegna vil ég spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort hún telji það koma til greina að færa til í fjármálastefnunni þannig að við færum það sem eyrnamerkt er útgjöldum eftir þrjú ár fremst í stefnuna, þannig að ríkisvaldið stígi af miklum krafti inn í kreppuna núna en fari ekki inn í efnahagsástand síðar, eftir kannski tvö til þrjú ár þegar uppsveiflan er hafin. (Forseti hringir.) Við þekkjum það af sögunni hvaða afleiðingar slíkar aðgerðir geta haft. Þannig að spurningin er þessi: Er forsætisráðherra tilbúin að ljá máls á því að færa til í fjármálaáætluninni þannig að hún verði framhlaðin en ekki flöt kúrfa eins og hún er í dag?