Bráðabirgðaútgáfa.

150. löggjafarþing — 136. fundur,  3. sept. 2020.

efnahagsráðstafanir.

[10:54]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Ég vil fyrst segja að ég hjó aðeins eftir því sem hv. þingmaður sagði um að sóttvarnaráðstafanir ríkisstjórnarinnar hefðu þau áhrif að auka atvinnuleysi. Ég bið alla hv. þingmenn að velta því fyrir sér hver staðan væri ef ekki hefði verið gripið til þeirra sóttvarnaráðstafanir sem gripið hefur verið til. Eru það ráðstafanirnar sem eru að hafa áhrif eða er það heimsfaraldurinn sem hefur áhrif? Ég held að það væri áhugavert fyrir hv. þingmenn að skoða tölur um samdrátt til að mynda á Norðurlöndum þar sem Norðurlöndin hafa valið mjög ólíkar leiðir til að takast á við faraldurinn. Við erum með dæmi frá Svíþjóð sem valdi allt aðra leið en Ísland en er með nánast sama samdrátt á öðrum ársfjórðungi. Höfum það í huga þegar við ræðum þessi mál. Allar þjóðir standa frammi fyrir efnahagslegum afleiðingum af faraldrinum. Þar er ekki hægt að tala um ráðstafanirnar sem beina orsök heldur stöndum við frammi fyrir efnahagslegum samdrætti af völdum heimsfaraldurs sem er að breyta öllu okkar lífi.

Hv. þingmaður vísar til fjármálastefnunnar sem er núna í meðförum þingsins. Ég veit að fjárlaganefnd er að skoða sérstaklega hvernig hún metur í raun og veru það óvissusvigrúm sem gefið er upp í stefnunni. Ég held að við eigum að leyfa fjárlaganefndinni að ljúka þeirri vinnu og þeirri umræðu.

Hvað varðar síðan fjármálaáætlun sem lögð verður fram hér 1. október er það mín skoðun, og ég tel að áætlunin muni endurspegla það, að við eigum að beita ríkisfjármálunum af fullum þunga til þess að við getum vaxið út úr þessari kreppu. Við höfum gefið út mjög skýra yfirlýsingu sem felur í sér þá stóru pólitísku ákvörðun að við ætlum ekki að skera niður í kerfum okkar heldur ætlum við að standa vörð um þann mikla árangur sem þar hefur náðst og við ætlum að auka opinbera fjárfestingu. Hversu mikið á að auka þá fjárfestingu held ég að sé líka mikilvægt samtal til að eiga hér í þinginu. Ég á nú eftir að kynna mér tillögur Viðreisnar sem hv. þingmaður vísaði til. (Forseti hringir.) En mér finnst ánægjulegt að skynja að það virðist vera nokkuð breið samstaða um áherslu á að skapa störf og fjölga störfum.