Bráðabirgðaútgáfa.

150. löggjafarþing — 136. fundur,  3. sept. 2020.

efnahagsráðstafnir.

[10:56]
Horfa

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Það hefur verið dásamlegt að fylgjast með almannavarnaþríeykinu, hvernig þau hafa sýnt bæði leiðtogahæfni og auðmýkt í þeim erfiðu spurningum sem þau hafa verið að fá. Þau hafa leitt samtalið, þau hafa upplýst þjóðina og ekki svarað spurningum með útúrdúrum og útúrsnúningum eða hvað það nú er, og mér finnst það til fyrirmyndar. Það sem ég legg áherslu á, og við erum að segja í Viðreisn, er að það er dýrkeypt að bíða. Að mínu mati er það dýrkeypt fyrir allt samfélagið að setja fram fjármálastefnu sem ber meiri keim af því hvernig ríkisstjórnarflokkarnir fara inn í kosningar frekar en því að taka á bráðavandanum núna. Í fullri vinsemd er ég að brýna ríkisstjórnina til þess að fara í enn frekari aðgerðir, færa það sem við áætluðum eftir þrjú ár framar í forgangsröðina til að taka á þeim mikla vanda sem við stöndum frammi fyrir — og hann er núna.

Ég vil líka undirstrika það að þegar við vorum að gagnrýna ríkisstjórnina hér varðandi lokunina þá gerðum við það líka varðandi opnunina. Hvort sem það var ákvörðunin í sumar eða núna þá (Forseti hringir.) vantaði planið samhliða. Það vantaði að útskýra fyrir fólki hvaða efnahagslegu og félagslegu afleiðingar ákvarðanir ríkisstjórnarinnar (Forseti hringir.) hefðu í för með sér, bæði í sumar og nú í haust.