Bráðabirgðaútgáfa.

150. löggjafarþing — 136. fundur,  3. sept. 2020.

efnahagsráðstafanir.

[10:58]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur fyrir og ítreka svar mitt hér áðan. Mér finnst mjög mikilvægt að samtal eigi sér stað í þinginu um það hvernig við viljum nákvæmlega skipuleggja þær nauðsynlegu opinberu fjárfestingar sem núverandi ríkisstjórn hefur aukið gríðarlega frá því að hún tók við. Við vorum auðvitað í sögulegu lágmarki þegar þessi ríkisstjórn tók við af þeirri ríkisstjórn sem sat á undan sem aðhafðist lítt í þeim málum. Við höfum fyrst tekið þá ákvörðun að auka við vegna þess að opinbert fjárfestingarstig var einfaldlega allt of lágt miðað við stöðu efnahagsmála. Síðan bættum við í vegna heimsfaraldurs. Myndist hér þverpólitísk samstaða um að auka enn frekar í þá held ég að það sé ekkert slæm hugmynd.

Mér finnst áhugavert að heyra hv. þingmann tala um að það þurfi að útskýra hlutina fyrir fólki. Ég held að Íslendingar skilji bara mjög vel hvað það er sem við höfum verið að gera, núverandi ríkisstjórn. Ég vísaði áðan í svari mínu við hv. þm. Birgi Þórarinsson í áhugaverða könnun sem birtist í gær þar sem kemur fram að 84% vilja óbreyttar eða harðari aðgerðir á landamærum. (Forseti hringir.) Er það vegna þess að landsmenn skilji ekki það sem ríkisstjórnin er að gera eða er það kannski einmitt vegna þess að þeir skilja það mjög vel og styðja hana? Það er sú ályktun (Forseti hringir.) sem ég dreg af þessari könnun, herra forseti, því að ég treysti landsmönnum mjög vel.