150. löggjafarþing — 136. fundur,  3. sept. 2020.

njósnir Bandaríkjanna á Norðurlöndum.

[10:59]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Nú á tímum Covid höldum við óteljandi fjarfundi og reiðum okkur meira á netið en nokkru sinni fyrr í samskiptum, fjarskiptum og viðskiptum okkar. Nú berast óþægilegar fréttir frá Danmörku. Í ljós hefur komið að leyniþjónusta danska hersins veitti Þjóðaröryggisstofnun Bandaríkjanna aðgang að ljósleiðurum í Danmörku svo að hún gæti stundað sínar víðtæku netnjósnir á öllu mannkyninu með töluvert skilvirkari hætti en hefur verið til þessa. Þarna eru samantekin ráð tveggja vinaþjóða okkar um að fylgjast með hegðun fólks á netinu, væntanlega í pólitískum tilgangi. Það eru óþægilegar fréttir fyrir margra hluta sakir, ekki síst vegna þess að þetta snertir Íslendinga með beinum hætti. Öll fjarskipti Íslendinga fara í gegnum þrjá sæstrengi sem allir liggja í gegnum danskt yfirráðasvæði. Allir tölvupóstarnir, öll skjölin, allir fjarfundirnir, öll okkar fjarskipti fara um þessa þrjá sæstrengi. Þegar þetta fer í gegnum þessa sæstrengi sem liggja á yfirráðasvæði Dana, sem hafa heimilað Bandaríkjastjórn að fylgjast með því sem er flutt í gegnum ljósleiðara, þá verðum við að vita hvað er í gangi. Ef Bandaríkjamenn hefðu áhuga á því að hnýsast um samskipti íslenskra stjórnvalda við önnur ríki þá eru þeir vísir til að gera það, enda hafa stjórnvöld í Washington ítrekað sýnt að þau eru tilbúin til að njósna um vini sína. Bandaríkjamenn hleruðu t.d. Angelu Merkel, Þýskalandskanslara og í rauninni sinn nánasta bandamann. Það væri barnalegt af okkur að ætla að þeir myndu hlífa okkur eitthvað sérstaklega.

Áhugi Bandaríkjanna á Íslandi er vissulega til staðar eins og heimsóknir Mike Pence og Mike Pompeos hafa sýnt, og reyndar fleiri dæmi. Mér finnst því eðlilegt að spyrja hæstv. utanríkisráðherra: Hefur hann rætt við dönsk eða bandarísk stjórnvöld um þessar tilteknu njósnir? Hafa bandarísk stjórnvöld farið fram á að njósna hér á landi með beinum hætti eins og þau hafa gert í Danmörku? Og hefur hann leitað eftir upplýsingum um þá áhættu og hvernig sé hægt að meta hana og jafnvel koma í veg fyrir hana?