150. löggjafarþing — 136. fundur,  3. sept. 2020.

breyting á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru .

972. mál
[12:02]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Við ræðum frumvarp félags- og barnamálaráðherra um aðgerðir á vinnumarkaði sem hefur að geyma ýmsar aðgerðir sem viðbrögð við heimsfaraldri Covid-19. Ég ætla að leyfa mér, forseti, að vera dálítið gagnrýnin vegna þess að margt í þessu stríðir hreinlega gegn skilningi mínum og þekkingu á því hvernig við virkum sem manneskjur.

Í bandorminum er ýmislegt ágætt, minni háttar lagfæringar og framlengingar sem eru sjálfsagðar og þarf ekki að ræða frekar hér. Það sem mig langar hins vegar að víkja sérstaklega að og leggja sérstaklega áherslu á í þessari ræðu er nýtt átak ríkisstjórnarinnar sem fært er í lög með frumvarpi sem nefnist Nám er tækifæri. Það hljómar ofboðslega vel. Það hljómar bara yndislega af því að nám er tækifæri en ekki bara það heldur líka fjárfesting. Það er í sjálfu sér góð hugmynd að hleypa atvinnulausum í menntaúrræði en rétt eins og aðrar aðgerðir ríkisstjórnarinnar í Covid-faraldrinum einkennist úrræðið því miður af mikilli forræðishyggju, nísku og gríðarlegri þörf núverandi valdhafa á að hafa vit fyrir fólki og engum skilningi á því að nám er ekki bara tækifæri heldur einnig fjárfesting. Fjárfesting í fólkinu, samfélaginu og framtíðinni.

Byrjum á þeirri augljósu vitleysu sem felst í því að hleypa þeim sem eru á atvinnuleysisbótum í nám en undanskilja alla þá sem eru þegar farnir í nám, jafnvel þó að þeir hafi farið í nám eftir að hafa misst vinnuna vegna Covid-faraldursins. Það er ekki einungis ósanngjarnt og óréttlátt gagnvart þeim heldur líka órökrétt. Hvað er það sem skilur allt það fólk sem þegar er í námi frá þeim sem vilja hefja nýtt nám? Hvers konar óréttlæti er það að á næsta ári verði annar hver nemandi í stofunni á fullum atvinnuleysisbótum á meðan hinn helmingurinn verður algerlega án aðstoðar? Þetta kemur í kjölfar þess að ríkisstjórnin gat ekki einu sinni greitt nemendum atvinnuleysisbætur vegna gríðarlegs tekjumissis stúdenta sl. sumar. Það er ekki nauðsynlegt að banna námsmönnum að sækja um stuðning meðfram námi í haust. Það er ákvörðun þvert á ákall og þarfir námsmanna. Íslenskir stúdentar neyðast til að vinna miklu meira með námi en stúdentar í Skandinavíu til þess eins að ná endum saman en nú hafa störfin þeirra bara fuðrað upp. Þeir eru því í enn verri stöðu í upphafi þessa skólaárs en oft áður og lausnin er að styðja við hina í skólastofunni. Þetta þarf ekki að vera svona, forseti, en það er það sem ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn virðist vilja. Eða þá að það er eitthvert gríðarlegt skilningsleysi í gangi, samhengislaus hugsun sem skortir alla heildstæða sýn á framtíðina og samfélagið og þessar aðgerðir.

Mér finnst sá þáttur þó ekki sá alvarlegasti við þetta úrræði. Það alvarlegasta er sú gríðarlega forræðishyggja sem birtist í skilyrðum úrræðisins. Til að geta komist inn í þetta átak ríkisstjórnarinnar þarf að funda með ráðgjafa Vinnumálastofnunar sem leggur mat á færni og stöðu umsækjandans og svo velja þeir nám í samráði sem hentar umsækjandanum en ekki hvaða nám sem er. Námið þarf að vera viðurkennt sem vinnumarkaðsúrræði, samanber d-lið 1. mgr. 12. gr. laga um vinnumarkaðsaðgerðir. Á mannamáli þýðir það að stjórnvöld þurfa fyrst að ákveða með sjálfum sér hvort þau telja námið gagnlegt. Gagnlegt hverjum, spyr maður. Væntanlega vinnumarkaðnum sem kemur á undan öllu öðru. Það þarf að stimpla og þá fyrst má hleypa umsækjanda í námið, að því gefnu að ráðgjafinn meti viðkomandi færan til að fara í það. En það er ekki það eina, forseti. Umsækjandinn þarf að hafa verið atvinnulaus í sex mánuði áður en hann óskar eftir samningi, námið þarf að nýtast honum í atvinnuleit að námi loknu að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar en alveg óljóst er hvernig á að meta það. Viðkomandi má ekki hafa nýtt rétt til námslána hjá Menntasjóði námsmanna. Svo gildir samningurinn hvort eð er bara í eina námsönn. Þetta úrræði endurspeglar svo vel þá forræðishyggju sem hefur birst í öllum aðgerðum ríkisstjórnarinnar. Skilyrðin eiga að vera svo þröng, eins þröng og mögulegt er, til að takmarka útgjöld, til að passa að einstaklingar og fjölskyldur taki ekki of stóran bita af kökunni. Vinnumarkaðurinn er settur á undan fólkinu, vinnumarkaðurinn vel að merkja eins og við höfum þekkt hann hingað til, engin hugsun um hvernig hann er að breytast því að við höfum ekki hugmynd um það.

En meira en nokkuð annað sýnir þetta fram á gamaldags og íhaldssama sýn ríkisstjórnarinnar á menntun. Takmarkið er ekki að efla einstaklinginn og gefa honum tækifæri til að auka færni sína heldur erum við að þjálfa upp gagnleg tannhjól í hagvaxtarvélina á vinnumarkaði eins og við höfum þekkt hann hingað til. Við vitum ekkert og tökum ekki til greina hvernig sá vinnumarkaður er að breytast og þróast til framtíðar.

Á þessum erfiðu tímum eigum við ekki að gera einstaklingum og fjölskyldum erfiðara fyrir með því að búa til þröng skilyrði og kerfi sem erfitt er að passa inn í. Það er ekki hlutverk okkar. Við eigum miklu frekar að vinna að því að fjarlægja skilyrðingar og skerðingar. Við eigum að auka fjárhagslegan stuðning við viðkvæma hópa eins og atvinnulausa, öryrkja og aldraða. Nú er tími til að fækka hindrunum og skapa sveigjanleika fyrir fólk til að feta sig á þessum óvissutímum. Við eigum að fella niður skilyrði og skerðingar. Hlutverk okkar er að skapa jarðveg fyrir fólk til þess að planta fræjum í og vaxa og dafna af því að hugmyndirnar sem koma til með að auka gæði framtíðarsamfélagsins og breyta vinnumarkaðnum koma ekki héðan úr þessu húsi, frá okkur eða ráðherrum. Þær koma frá fólkinu í landinu og við vitum ekki hvernig þær hugmyndir munu líta út og það er ekki hlutverk okkar að vita það fyrir fram. Við eigum bara að passa upp á það að jarðvegurinn sé til staðar og tækifærin séu jöfn.

Ríkisstjórnin segir að nám sé tækifæri en sleppir því alveg að klára fullyrðinguna. Nám er tækifæri ef ríkisstjórnin segir að það sé gott fyrir vinnumarkaðinn. Nám er tækifæri ef sótt er um á réttum tíma og þá bara í eina önn. Nám er tækifæri ef ráðgjafi Vinnumálastofnunar telur þig hæfan. Nám er tækifæri ef ráðgjafinn telur að það komi þér beint í vinnu eftir útskrift. Það er mjög auðvelt fyrir ríkisstjórnina að láta fullyrðingarnar sínar ganga upp ef hún fær síðan að skeyta óþörfum og skaðlegum skilyrðum aftan við hana.

Forseti. Við eigum að styrkja fólk í því að fara út í óvissuna og skapa eitthvað nýtt. Þar eru samfélagsverðmætin en ekki í úreltum hugmyndum ríkisstjórnarinnar um hvað hentar fólki og samfélaginu og hvað ekki. Það er nefnilega ekki hlutverk stjórnmálamanna að búa til kassa til að troða fólki í. Fólk þarf ekki stjórnmálamenn til að hafa vit fyrir sér. Það er í algerri andstöðu við allt það sem vinnumarkaðurinn kallar á. Þegar kemur að vinnumarkaðinum eigum við að styðja við nýsköpun og einstaklinga með hugmyndir. Við eigum að skapa jarðveg fyrir fólk til að blómstra og dafna í. Ég held að stjórnmálamenn misskilji hlutverk sitt þegar kemur að stuðningi við einstaklinga og að menntakerfinu og misskilji hlutverk sitt yfir höfuð. Það finnst mér synd.