150. löggjafarþing — 136. fundur,  3. sept. 2020.

breyting á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru .

972. mál
[12:11]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegur forseti. Það er nóg að gera í þinginu, þingmenn að breyta ræðutímum og að laga sig að því mikla annríki sem hér gildir. Hv. þm. Oddný Harðardóttir átti að vera á undan mér en við erum búin að vera að skipta um sæti á listanum í allan morgun þannig að hún kemur hér rétt á eftir og kemur þá bara í kjölfarið á mér.

Virðulegur forseti. Ég ætla að ræða nefndarálit með breytingartillögu um frekari aðgerðir vegna vinnumarkaðar. Líkt og hefur verið rakið er frumvarpið lagt fram í ljósi breyttra aðstæðna á vinnumarkaði þar sem mikil óvissa ríkir enn vegna Covid-faraldursins. Mikill samdráttur hefur orðið í mörgum atvinnugreinum og enn er ófyrirséð hve lengi sá samdráttur mun standa yfir. En það er líka mikilvægt á meðan svo er að þingið og ríkisstjórnin og við öll saman gerum meira en minna í þeim efnum eins og margoft hefur komið fram. Mér finnst — og ég finn undirtektir fyrir því — almenningur hafa verið sáttur við það sem hefur verið gert og mikilvægt að við höldum því áfram. Það þarf að bregðast við og það eru stjórnvöld að gera. Lagðar eru til tímabundnar breytingar til að bregðast við aðstæðum á íslenskum vinnumarkaði. Vert er þó að undirstrika að í undirbúningi er heildarendurskoðun laga um atvinnuleysistryggingar í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins og vegna þeirrar endurskoðunar hafa ýmsar aðgerðir okkar ekki náð að klárast eins og við hefðum kannski kosið, sem síðar verður komið inn á og aðrir þingmenn hafa þegar rætt um.

Meiri hluti velferðarnefndar áréttar að þær breytingar sem varða atvinnutengda starfsendurhæfingu í frumvarpinu eru gerðar varanlegar en markmiðið með þeirri aðgerð er að gera sem flestum kleift að vera virkir á vinnumarkaði með heildstætt kerfi endurhæfingar. Hér hefur mikilvægt skref verið stigið. Þá er tryggð heimild til vinnuveitenda og sjálfstætt starfandi einstaklinga til að greiða launatap til þeirra foreldra sem eiga langveik eða alvarlega fötluð börn sem ekki geta lifað sínu daglega lífi þar sem þjónusta við þau liggur niðri. Komið er til móts við þennan hóp með hækkun umönnunarbóta. Nefndin beinir því til ráðuneytisins að taka sjónarmið í þeim efnum til skoðunar við heildarendurskoðun almannatryggingalaga. Mikilvægt er að jaðarsettir hópar fái úrlausn sinna mála en mikilvægast er að áhrifum Covid-faraldursins linni. Hann hefur haft gríðarleg áhrif á þessa hópa og það kemur auðvitað í ljós undir þessum kringumstæðum að tryggingar þeirra og lög og umgjörð um afkomu þeirra hefði mátt vera tryggari.

Með frumvarpinu er lagt til að sá sem telst tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins öðlist rétt til tekjutengdra atvinnuleysisbóta í allt að sex mánuði í stað þriggja. Hér er um sérstaklega mikilvæga aðgerð að ræða til að takast á við þær aðstæður sem komið hafa upp í samfélaginu vegna heimsfaraldursins. Með þeirri aðgerð er komið til móts við einstaklinga sem orðið hafa fyrir atvinnumissi og munu búa við skerta möguleika á atvinnu næstu misseri því ljóst er að hið mikla óvissuástand mun vara öllu lengur en gert var ráð fyrir í upphafi. Með úrræðinu er staða heimila og fjölskyldna í landinu styrkt við krefjandi aðstæður. Í því sambandi er vert að minna á að á svæðinu þar sem atvinnuleysi er mest, á Suðurnesjum, er ekki óalgengt að fjölskyldur, fyrirvinnurnar báðar og jafnvel börnin, vinni á flugvellinum þar sem starfsemin hefur nánast legið niðri síðan í vor. Það hefði verið hrikaleg staða ef við hefðum ekki farið þessa leið. Þess vegna var það rætt strax í þingflokki Sjálfstæðisflokksins í vor, undir forystu fjármálaráðherra, að þriggja mánaða tekjutengdar atvinnuleysisbætur yrðu trúlega ekki nóg og nú er verið að bæta úr því og skiptir það gríðarlega miklu máli fyrir fólk á Suðurnesjum og alla þá sem þurfa á því að halda.

Virðulegi forseti. Meiri hluti nefndarinnar leggur áherslu á að hlutastarfaleiðin hefur sem úrræði náð að vernda ráðningarsamband þúsunda launamanna við vinnuveitendur. Ef ekki hefði komið til þess hefði mögulega þurft að mæta sama kostnaði annars staðar í rekstri hins opinbera. Meiri hluti velferðarnefndar hefur því lagt til þær breytingar á frumvarpinu að úrræðið verði framlengt um fjóra mánuði en ekki tvo, til 31. desember 2020, vegna þeirrar miklu óvissu sem enn ríkir á vinnumarkaði. Sá framlengdi tími sem meiri hluti nefndarinnar leggur til getur jafnframt gagnast til þess að stjórnvöld fái svigrúm til að endurmeta aðgerðir. Í því sambandi er vert að minna á að í lögunum er gert ráð fyrir því að framlengt yrði um tvo mánuði en það kom skýrt fram í nefndinni, bæði hjá meiri og minni hluta og eins þeim gestum sem fyrir nefndina komu, að sá tími væri of skammur og fyrirtækin og einstaklingarnir þyrftu að gera áætlanir lengra fram í tímann og það var og er algjör samstaða um það. Nú vinnst okkur tími til þess að endurskoða hlutabótakerfið, hvort við höldum því áfram inn í næsta ár eða hvort önnur leið verður fær. Sá tími sem gefst verður notaður til að finna þær leiðir.

Virðulegur forseti. Nefndin fjallaði um skörun bótakerfa og þá staðreynd að greiðslur ellilífeyris geti virkað sem skerðing á hlutabótum. Upp hafa komið tilvik þar sem greiðslur ellilífeyris hafa komið til lækkunar á hlutabótum. Ég hef alla tíð barist fyrir bættum kjörum eldri borgara og öryrkja. Þess vegna er sérstaklega ánægjulegt að meiri hluti velferðarnefndar leggi til breytingar þess efnis að greiðslur elli- og örorkulífeyris samkvæmt lögum um almannatryggingar skerði ekki greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði, nýti einstaklingur sér hlutastarfaleiðina. Hér er verið að fara nýja leið, kannski tímabundna leið, en það minnir okkur jafnframt á að skerðingar vegna atvinnutekna eldri borgara og öryrkja eru auðvitað eitthvað sem þarf að endurskoða og er auðvitað í umræðu endalaust og ég vona að þessi lög og þær breytingartillögur sem hér koma fram verði til þess að bæta enn betur úr. Við höfum talað um það að við ætlum að gera nóg. Það verður trúlega aldrei nóg en við ætlum að gera meira en minna.