150. löggjafarþing — 136. fundur,  3. sept. 2020.

breyting á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru .

972. mál
[12:19]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Við erum auðvitað að glíma við mjög alvarlega stöðu. Það dylst engum. Í lok júlí voru alls 17.104 einstaklingar að fullu án atvinnu hér á landi og fengu greiddar atvinnuleysistryggingar frá Vinnumálastofnun og 3.815 fengu greiddar hlutabætur á móti minnkuðu starfshlutfalli. Samtals 20.919 manns. Í þessum tölum eru ekki þeir sem nú eru á uppsagnarfresti en spár gera almennt ráð fyrir að atvinnuleysi fari vaxandi með haustinu samhliða því sem langtímaatvinnulausum fjölgi. Síðan þessar tölur voru teknar saman hjá Vinnumálastofnun var 62 sagt upp í Fríhöfninni og 133 hjá Isavia, svo að dæmi séu tekin um nýlegar hópuppsagnir. Ef okkur tekst ekki að skapa ný störf, ef faraldurinn heldur áfram, bóluefni finnst ekki og kreppan dýpkar, erum við í enn meiri vanda. Í júlí var atvinnuleysi á Suðurlandi 7,3%. Á Austurlandi var það 4%, Norðurlandi eystra 5,5%, Norðurlandi vestra 3,3%, á Vestfjörðum 3,2%, Vesturlandi 5,3% en á Suðurnesjum 16,5% og á höfuðborgarsvæðinu 9,3%. Heildaratvinnuleysi á landinu í júlí var samtals 8,8%.

Meðallaun fyrir fullt starf eru í kringum 800.000 kr. á mánuði samkvæmt framreiknuðum tölum frá Hagstofu Íslands um laun fyrir árið 2018. Líkt og bent er á í nefndaráliti fulltrúa Samfylkingarinnar í velferðarnefnd, hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur, formanns nefndarinnar, eru atvinnuleysisbætur á Íslandi áunnin réttindi launafólks til að tryggja afkomuöryggi við atvinnumissi. Fyrirkomulagið byggist á grunngildum norrænnar jafnaðarstefnu og var komið á hérlendis eftir mikla baráttu verkalýðshreyfingarinnar og stjórnmálaflokka sem tóku slaginn fyrir almenning. Þetta er gríðarlegt hagsmunamál fyrir þau heimili sem verða fyrir atvinnuleysi en atvinnuleysistryggingar eru einnig hagkvæmar út frá þjóðhagslegu sjónarmiði og hagstjórnarlegum markmiðum. Það er mjög mikilvægt að hafa í huga að þegar við erum í eftirspurnarkreppu, og þegar ástandið er eins og það er núna, skiptir máli að fólk hafi fjármuni milli handanna til að setja út í hagkerfið, ef svo má segja, og sjá fjölskyldu sinni og sjálfu sér farborða.

Grunnatvinnuleysisbætur eru í dag 289.510 kr. á mánuði sem er umtalsvert lægra en lægsta tekjutryggingin sem er 335.000 kr. Að auki eru greiddar 11.580 kr., eða 4% af grunnatvinnuleysisbótum, með hverju barni undir 18 ára. Með samþykkt Alþingis 11. maí 2020 voru greiðslur með hverju barni hækkaðar í 6% til bráðabirgða að tillögu Samfylkingarinnar og fóru þá í 17.371 kr. Þetta gildir þó aðeins til 31. desember í ár. Sá sem er á grunnatvinnuleysisbótum þarf að vera með þrjú börn undir 18 ára aldri á sinni framfærslu til að ná lágmarkstekjutryggingunni og komast yfir 335.000 kr. á mánuði. Það sér hver maður að fjölskylda sem þarf að búa við þær aðstæður langtímum saman, vikum og mánuðum saman, er í miklum vanda. Tekjufallið er mikið þegar farið er inn í tekjutengda tímabilið en verður enn meira þegar farið er frá tekjutengingu niður í grunnatvinnuleysisbætur.

Atvinnuleitendur eiga rétt til tekjutengdra atvinnuleysisbóta í allt að þrjá mánuði í upphafi hvers bótatímabils sem nú er að hámarki 30 mánuðir. Tekjutengdar atvinnuleysisbætur nema 70% af tekjum fyrir atvinnumissi en þó að hámarki 456.404 kr. á mánuði. Tekjufall þeirra sem hafa tekjur umfram 652.000 kr. er því umfram þau 30% sem lagt er upp með á tekjutengda tímabilinu. Tekjutenging bóta skiptir því litlu máli fyrir heildarmyndina ef atvinnuleysistímabilið verður langt. Eftir skatt eru grunnatvinnuleysisbætur 242.700 kr. og tekjutengdar bætur 348.500 kr. Af þessum tölum má sjá að fjárhagslegt tjón einstaklings sem missir vinnuna er verulegt og hefur mikil áhrif á fjárhag heimilis, fjölskylduna og þar með líf og heilsu viðkomandi. Augljóslega dregur sá sem þarf að framfleyta sér á atvinnuleysisbótum verulega úr neyslu sinni. Mikið og langvarandi atvinnuleysi hefur því einnig neikvæð áhrif á eftirspurn í hagkerfinu sem aftur fækkar störfum.

Áhrif kreppunnar í kjölfar Covid-19 faraldursins bitna harðast á þeim sem missa vinnuna og fjölskyldum þeirra. Þeir bera að mestu byrðarnar af heimsfaraldrinum. Grunnatvinnuleysisbætur eru langt undir lágmarkstekjutryggingunni en til að dreifa byrðunum og draga úr tekjufalli verður að lengja tekjutengda tímabilið strax, eins og reyndar er verið að gera og því má fagna. Það verður að hækka grunnatvinnuleysisbætur. Miðstjórn ASÍ hefur lagt til að þær verði 95% af lágmarkstekjutryggingunni og réttur til atvinnuleysistrygginga verði lengdur um 12 mánuði til að mæta vaxandi langtímaatvinnuleysi. Auk þess er mikilvægt að framlag með hverju barni hækki og það varanlega, því að það er skammarlega lágt eins og það er í lögunum, og að hlutabótaleiðin verði framlengd til a.m.k. 1. júní 2021 til að auka fyrirsjáanleika í kerfinu. Nú er verið að leggja til að hlutabótaleiðin verði framlengd til áramóta.

Atvinnumissir er alvarlegra mál í kreppu en í góðæri. Fjöldi fólks missir vinnuna á sama tíma og það skapar sérkennilegt ástand sem getur orðið mjög alvarlegt á landsvæðum þar sem atvinnuleysi verður hvað mest. Slæmar aukaverkanir af langtímaatvinnuleysi eru þekktar, þ.e. aukið ofbeldi á heimilum, meiri drykkja, svartsýni og vanræksla á börnum. Nú er það ekki svo að ástandið sé þannig á heimilum allra sem verða langtímaatvinnulausir. En því miður eru þetta fylgikvillar. Það þarf að gæta sérstaklega að heimilum langtímaatvinnulausra og barna þeirra.

Þegar fram líður er mikilvægast að fjölga störfum en það tekur tíma. Atvinnuleysisbætur má hins vegar hækka strax. Mikilvægt er að atvinnuleitendur finni starf þar sem menntun þeirra og reynsla nýtist sem best. Að öðrum kosti er hætta á að verðmæt menntun og sérhæfing glatist. Því hefur verið haldið fram, m.a. af Samtökum atvinnulífsins og hæstv. fjármálaráðherra, að hækki atvinnuleysisbætur fjölgi atvinnulausum. Því sé mikilvægt að halda atvinnuleysisbótum lágum þegar störfum fækkar í þúsundatali í heimsfaraldri. Þessi ummæli eru hjákátleg því að það er enga vinnu að fá. Eins og margir hagfræðingar, bæði innlendir og erlendir, hafa bent á á undanförnum dögum skiptir núna máli að hækka atvinnuleysisbætur, bæði til að bjarga efnahag heimilanna og koma til móts við vonda stöðu þar og einnig til að auka eftirspurn í hagkerfinu. Fólkið sem er á atvinnuleysisbótum á ekki pening til að setja í bankabók eða senda til Tortóla, eða hvað það nú er, heldur mun það fara út í búð og kaupa nauðsynjavörur fyrir sig og börnin sín. Stór hluti þeirrar upphæðar sem ríkið leggur til hækkunar atvinnuleysistrygginga skilar sér beint til baka í gegnum skatta og aukin efnahagsumsvif. Hins vegar er fátækt og neyð á heimilum samfélaginu mjög dýr í öllum skilningi. Þegar við í Samfylkingunni leggjum áherslu á að grunnatvinnuleysisbætur verði hækkaðar er það því auðvitað til að mæta bráðavanda en einnig til að koma í veg fyrir að kostnaðurinn lendi harkalega á samfélaginu síðar.

Nú er það svo að í því stjórnarfrumvarpi sem hér er rætt um er hvergi minnst á þá 12.000 einstaklinga sem samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun fá ekki tekjutengdar atvinnuleysisbætur heldur eru á grunnatvinnuleysisbótum. Þær eru 289.510 kr. á mánuði og rétt um 243.000 kr. eftir skatt, eins og ég sagði áðan. Við í Samfylkingunni tökum undir með ASÍ þegar við segjum að núna er mikilvægt að hækka atvinnuleysisbæturnar upp í 95% af lágmarkstekjutryggingu. Grunnatvinnuleysisbætur sem hlutfall af lágmarkslaunum eða lágmarkstekjutryggingu hafa rokkað mikið í gegnum árin. Árið 2009, strax eftir bankakreppu, voru atvinnuleysisbætur hækkaðar upp í 95% af lágmarkslaunum. Síðan fóru þær lækkandi og þegar hægri stjórnin var við völd á árunum 2013–2016 sigu þær mjög langt niður og voru komnar í 75% af lágmarkslaunum árið 2015. Þá var auðvitað góðæri og fáir atvinnulausir. Atvinnuleysi í kreppu er miklu alvarlegra en atvinnuleysi í góðæri þar sem mörg störf eru á lausu og líklegt að fólk sé ekki lengi atvinnulaust. Síðan voru atvinnuleysistryggingarnar hækkaðar að kröfu verkalýðshreyfingarinnar árið 2018 og nú eru þær 86% af lágmarkstekjutryggingunni. Krafan er ekki mikil. Hún er aðeins um að fara upp í 95% af lágmarkstekjutryggingunni.

Í andsvörum við hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur í gær, þegar hún var að mæla fyrir nefndaráliti meiri hluta velferðarnefndar, spurði ég hvers vegna stjórnarflokkarnir vildu skilja þennan hóp eftir og ekki gera neitt fyrir hann, þessi 12.000. Væntanlega mun hópurinn fara vaxandi á næsta ári ef ekki dregur úr faraldrinum og bóluefni kemst ekki á markaðinn. En auðvitað mun fara fækkandi í hópnum um leið og ný störf og ný atvinnutækifæri skapast. Hv. þingmaður svaraði því til að of dýrt væri að koma til móts við þær fjölskyldur í landinu sem verst eru staddar og þurfa að bera þyngstu byrðarnar af heimsfaraldrinum. Í þeim sporum sem við erum núna eru sumir bara í fínni stöðu og fjárhagur heimilanna mjög góður en þeir sem hafa misst vinnuna bera byrðarnar. Við í Samfylkingunni viljum dreifa byrðunum. Það er ekki dýrt. Ef við myndum hækka grunnatvinnuleysisbætur núna og láta hækkunina taka gildi frá 1. október yrði kostnaðurinn 1 milljarður og 35 millj. kr., ef við færum upp í 95% af lágmarkstekjutryggingunni. Auðvitað myndi kostnaðurinn hækka á árinu 2021. Í breytingartillögu við frumvarpið gerum við ráð fyrir að hækkunin yrði til bráðabirgða til 1. október 2021. Fyrir 12.000 manns myndi sú hækkun kosta 4 milljarða og 746 millj. kr. Auðvitað er erfitt að sjá hve stór hópurinn yrði á árinu 2021, hann getur meira að segja orðið eitthvað breytilegur á árinu 2020 en þar eru lægri tölur undir. Fyrir 12.000 manns myndi þessi hækkun sem sagt kosta 1 milljarð og 35 millj. kr. á árinu 2020 en 4 milljarða og 746 millj. kr. á árinu 2021. Þetta segja stjórnarliðar að sé of dýrt, fólkið verði bara að bera þessar byrðar, það sé ekkert hægt að létta undir með því. Þetta verði bara að vera svona.

Þetta sama fólk samþykkti að lækka bankaskatt um 11 milljarða. Því fannst í lagi að gera það. Það aðstoðaði fyrirtæki við að segja upp fólki og gerði ráð fyrir að það myndi kosta 25 milljarða. Það hækkaði endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna vinnu við fasteignir og það kostar 8 milljarða. Fínasta aðgerð en ekki of dýr fyrir stjórnarflokkana. Og ferðagjöfin. Ef við berum kostnaðinn við að hækka grunnatvinnuleysisbætur upp í 95% af lágmarkstekjutryggingu árið 2020 saman við ferðagjöfina, sem við fengum til að kaupa okkur gistingu og mat í sumar, er hann lægri. Það er lægri upphæð. Það var 1,5 milljarðar.

Frú forseti. Það er alveg sama í hvaða samhengi við setjum þessar tölur. Það er svo fáránleg röksemd að segja: Við getum ekki dreift byrðunum. Við getum ekki létt undir með þeim sem þurfa að bera skaðann að mestu af heimsfaraldrinum af því að það er svo dýrt. Á meðan rennur í gegn annað upp á tugi milljarða. Síðar í þessari viku fjöllum við um ríkisábyrgð á láni til Icelandair. Það getur kostað okkur ef illa fer en stjórnarflokkarnir eru tilbúnir til að taka þá áhættu. En þeir vilja ekki standa með fólkinu sem þarf að framfleyta sér á grunnatvinnuleysisbótum.

Það má vera, frú forseti, að þér finnist ég ekkert óskaplega æst yfir þessu máli. Þá get ég sagt að ég er svo brjáluð úr reiði út í stjórnarflokkana og yfir skorti þeirra á mannvirðingu og virðingu fyrir fólki sem misst hefur vinnuna að ég er komin í doðaástand, næstum því. Þetta er svo mikið til skammar fyrir Vinstri græna, fyrir Sjálfstæðisflokkinn, fyrir Framsóknarflokkinn sem voga sér að halda fólki sem misst hefur vinnuna í heimsfaraldri í sárafátækt. Skammist ykkar.