150. löggjafarþing — 136. fundur,  3. sept. 2020.

breyting á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru .

972. mál
[15:34]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við greiðum hér atkvæði um ýmsar góðar tillögur, bæði frá meiri hluta, frá ríkisstjórninni, og ekki síður frá minni hluta. Ég vil hvetja stjórnarliða til þess að opna augun, vera hugrökk, horfa fram á veginn og ígrunda í alvöru hvort það geti gagnast almenningi, samfélaginu öllu, að styðja þær góðu breytingartillögur sem koma frá minni hlutanum. Við erum að tala um tímabundna hækkun grunnatvinnuleysisbóta. Við erum að tala um að styðja við foreldra langveikra og fatlaðra barna sem þurfa að fara úr vinnu vegna þess að börnin fá ekki nauðsynlega sólarhringsþjónustu út af sóttvarnaráðstöfunum. Við erum að tala um að lengja hlutabótaleiðina, ekki bara um nokkur skref heldur fram á næsta vor, af því að þá höldum við að samfélagið verði aðeins komið af stað. Að lokum leggjum við til að stutt verði við námsmenn. Ég vil hvetja stjórnarliða til þess að þora að styðja við nauðsynlegar tillögur af því að við eigum að grípa sem flesta í þessu ástandi.