150. löggjafarþing — 136. fundur,  3. sept. 2020.

breyting á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru .

972. mál
[15:38]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Hér greiðum við atkvæði um mjög mikilvægar vinnumarkaðsaðgerðir fyrir atvinnulausa. Við erum að lengja tekjutengda atvinnuleysisbótatímabilið úr þremur mánuðum í sex mánuði, sem er mjög mikilvæg aðgerð, og hækka atvinnuleysisbætur. Við bjóðum fólki á atvinnuleysisbótum að fara í nám á atvinnuleysisbótum, sem styrkir viðkomandi mjög á vinnumarkaði. Við látum atvinnutengda starfsendurhæfingu svara til 13 vikna vinnuframlags, sem styrkir viðkomandi mjög mikið og þátttöku hans á vinnumarkaði. Við hækkum einingafjölda á önn úr 10 einingum í 12 fyrir þá sem eru á bótum og í námi, án þess að bætur skerðist. Hlutabótaleiðin verður lengd til áramóta, sem skiptir gífurlegu máli fyrir þá sem eru með ráðningarsamning til þess að geta haldið því áfram. Nám er tækifæri, mjög mikilvægt úrræði, þar sem fólki á atvinnuleysisbótum býðst að fara í nám og námsstuðning í framhaldinu. Þetta eru gífurlega góðar aðgerðir sem skipta fólk máli. Það má ekki vanmeta slíkar aðgerðir og við höldum áfram að vinna að því að styðja atvinnulausa til starfa.