150. löggjafarþing — 136. fundur,  3. sept. 2020.

breyting á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru .

972. mál
[15:42]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Atvinnuleysi er stóra ógnin sem íslenskt samfélag stendur frammi fyrir og það er þungt áfall að verða fyrir atvinnumissi. Þess vegna tel ég að það mál sem við ætlum að greiða atkvæði um sé mjög gott af því að við erum að lengja tekjutengda tímabilið sem mun grípa mjög marga þá sem misst hafa vinnuna vegna heimsfaraldurs, af því að við erum að tryggja að atvinnuleitendur geti skapað sér ný tækifæri með því að sækja sér menntun. Ég þekki það mætavel eftir að hafa verið menntamálaráðherra hér eftir hrun hversu miklu það skipti að geta boðið upp á ný tækifæri fyrir á fjórða þúsund manns sem sóttu sér menntun, sköpuðu sér ný tækifæri eftir að hafa misst vinnu.

Í þriðja lagi ítreka ég að stóra verkefnið okkar allra hlýtur að vera að skapa ný störf í samfélaginu, auka verðmætasköpun og tryggja að saman getum við vaxið út úr þessari kreppu. Það er stóra verkefnið okkar allra og ég held að þær aðgerðir sem við erum að samþykkja hér í dag muni hjálpa samfélaginu til að gera einmitt það. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)