150. löggjafarþing — 136. fundur,  3. sept. 2020.

breyting á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru .

972. mál
[15:47]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Hér greiðum við atkvæði um breytingu á lögum um stuðning vegna launa í sóttkví. Við höfum ákveðið að styðja fólk sem þarf að fara í sóttkví og getur þess vegna ekki sótt vinnu. Við ákváðum síðasta vor að styðja foreldra barna sem ekki geta verið í skóla eða leikskóla en þurfa umönnun heima, þurfa að hafa foreldri heima. Við ákváðum að styðja það. Við ákváðum hins vegar að skilja út undan foreldra langveikra og fatlaðra barna á þeim tímapunkti af því að við vildum að ráðuneytið myndi grípa það og reyna að finna út hvernig við getum komið til móts við atvinnumissi þessara foreldra. Því miður gekk það ekki eftir. Hér höfum við tækifæri til þess að leyfa foreldrum fatlaðra og langveikra barna líka að njóta stuðnings vegna þessa úrræðis þegar þau geta ekki sinnt vinnu vegna þess að sólarhringsþjónusta við þennan hóp barna fellur niður vegna sóttvarnaráðstafana. (Forseti hringir.) Þetta er jafnréttismál, þetta er stórt mannréttindamál og ég hvet stjórnarliða til þess að sýna hugrekki og styðja það. Þetta er algjört prinsippmál.