150. löggjafarþing — 136. fundur,  3. sept. 2020.

breyting á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru .

972. mál
[16:03]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Við í Viðreisn höfum ekki verið fyrir það að fara í að breyta grunnkerfum, við erum hrædd um að það séu viðvarandi breytingar. Krísan er núna, hún er tímabundin. Þessi tillaga frá Samfylkingunni felur m.a. í sér að verið er að taka tímabundið á þeim vanda sem fólk stendur frammi fyrir og fleiri munu bætast í hóp atvinnulausra. Við þurfum að færa fólki bjargir núna, ekki einhvern tímann seinna, þótt velviljinn sé mikill. Fólk þarf á stuðningi og fyrirsjáanleika að halda núna. En enn og aftur stöndum við frammi fyrir ríkisstjórn með gamaldags nálgun. Allt sem kemur frá stjórnarandstöðunni er fellt, sama frá hvaða flokki það er, en það eru einmitt tillögur sem fela í sér að mæta erfiðleikum fólks og fyrirtækja núna, ekki seinna heldur núna. Ríkisstjórnin fellir allar okkar tillögur og mér finnst það mikil skömm fyrir ríkisstjórnina.