150. löggjafarþing — 136. fundur,  3. sept. 2020.

breyting á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru .

972. mál
[16:07]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Kærar þakkir. Þetta er ofboðslega góð breytingartillaga og mér finnst mikilvægt að koma hingað upp og segja að ég styð hana heils hugar. Þarna er verið að skapa aukinn sveigjanleika fyrir fólk á þessum gríðarlegu óvissutímum á gjörbreyttum vinnumarkaði. Við erum að skapa nauðsynlegan sveigjanleika til að fólk geti mögulega prófað sig áfram í nýjum störfum í staðinn fyrir að halda að sér höndum og gera ekki neitt. Við sáum hvað það var erfitt í sumar. Við komumst að því þegar Íslendingar voru að ferðast um landið í miklum mæli að það vantaði starfsfólk úti um allt úti á landi í sumar. Það var ófyrirséð, það var svo mikil óvissa og fólk fann ekki fyrir því öryggi að það hefði trausta og trygga grunnframfærslu, það gat ekki mætt til vinnu þegar þörf var á. Það er einmitt þannig staða sem við viljum koma í veg fyrir í núverandi efnahagsástandi.

Við viljum skapa sveigjanleika og þetta er mjög mikilvægt skref í því. (Forseti hringir.) Ég vona innilega að fólk skipti um skoðun og styðji þetta, ef ekki þá vona ég að ríkisstjórnin komi kannski með eitthvað (Forseti hringir.) til þess að breyta þessu.