150. löggjafarþing — 137. fundur,  3. sept. 2020.

húsnæðismál .

926. mál
[21:03]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. velferðarnefnd fyrir vinnslu þessa máls. Það er mikið fagnaðarefni að við skulum stíga þetta skref hér til að auðvelda ungu og tekjulágu fólki, og einnig fólki sem missti eignir sínar í hruninu, að komast í eigið húsnæði. Meiri hluti þeirra sem eru á leigumarkaði í dag er í lægstu tekjutíundum samfélagsins og hátt í 90% þeirra sem eru á leigumarkaðnum vilja komast í eigið húsnæði. Hér stígum við gríðarlega mikilvægt skref til þess að hjálpa þeim hópi að komast í eigið húsnæði. Það er mikilvæg viðurkenning á því að allir eigi rétt á því að eiga eigið þak yfir höfuðið en ekki bara þeir sem eru í hæstu tekjutíundunum í íslensku samfélagi. Til hamingju með þetta. Ég er stoltur af þessu máli og ég óska okkur öllum til hamingju með það.