150. löggjafarþing — 138. fundur,  3. sept. 2020.

um fundarstjórn.

[21:11]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Forseti. Ég vil leiðrétta nokkur atriði. Hv. þm. Smári McCarthy nefndi það sérstaklega í efnahags- og viðskiptanefnd að hann væri á móti þessu máli. Það kom líka fram í nefndinni aftur og aftur að það væri ekki ákveðið á fundum hennar hvort málið yrði flutt, það yrði að vera ákveðið á vettvangi þingflokksformanna. Það hlýtur forseti að vita. Þetta er það sama og er verið að segja varðandi það að framlengja strandveiðar fram í september í atvinnuveganefnd. Þar er sagt: Það er ekki hægt að ákveða þetta hér nema flytja málið. Það verður að ræða á vettvangi þingflokksformanna, enda segja lögin líka að forseti Alþingis verði að hafa samráð við þingflokksformenn um dagskrá þingsins. Það er það sem þarf að gera og það er ekki það sem var gert. Forseti sem hefur verið hérna í meira en 30 ár á að vita að að sjálfsögðu á að ræða það við þingflokka ef hann ætlar að setja mál á dagskrá sem eru ekki inni í þessum pakka. Þetta er það sem við höfum áhyggjur af. Að engri dagskrá sé dreift er ekki vegna Covid, það var gott að fá leiðréttingu á því en dagskráin var ekki einu sinni komin á netið þegar forseti var byrjaður að lesa upp og keyra í gegn (Forseti hringir.) án þess að hafa sagt neinum frá því, ekki þingflokksformönnum, (Forseti hringir.) að þetta mál eigi að fara á dagskrá fundarins. (Forseti hringir.) Það gengur ekki. Við verðum að vita hvað við erum að samþykkja hérna (Forseti hringir.) áður en verið er að fara af stað með það og það verður að hafa samráð við þingflokksformenn.