150. löggjafarþing — 138. fundur,  3. sept. 2020.

um fundarstjórn.

[21:17]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég hef ekkert við fundarstjórn forseta að athuga en mér finnst leiðinlegt að þessi misskilningur hafi verið uppi í dag og leiðinlegt að þetta hafi komið fólki á óvart. Þar sem ég sit í hv. efnahags- og viðskiptanefnd er alveg ljóst að formaður nefndarinnar gaf það skýrt til kynna að að öllum líkindum þyrfti að ræða það meðal formanna flokkanna eða þingflokksformanna hver afdrif þessa máls yrðu hér á þessum þingstubbi, ekki endilega hvort málið fengi umræðu og mælt yrði fyrir því heldur hver afdrif málsins yrðu. En þetta er klárt Covid-mál eins og allir ættu að átta sig á. Þetta er tiltölulega einfalt mál. Við erum ekki að auka mjög áhættu lífeyrissjóðanna en þetta tengist hlutafjárútboði Icelandair og ég stóð í þeirri meiningu að við værum flest á því að við vildum fá þetta mál til umræðu, taka þá efnislegu umræðu um það í þingsal ef uppi væri ágreiningur um málið þó að öll nefndin hafi ekki viljað standa að því að flytja það í þingsal. Ég held að við ættum að geta farið að drífa okkur í að mæla fyrir þessu ágæta máli. Þá getur átt sér stað málefnaleg umræða ef fólk hefur mismunandi skoðanir á málinu sem slíku.