150. löggjafarþing — 138. fundur,  3. sept. 2020.

um fundarstjórn.

[21:19]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Ég hef ekkert á móti því að málið sé tekið hér til umræðu. Ég greiddi ekki atkvæði í þessari atkvæðagreiðslu, einnig vegna þess að ég var dálítið pirraður yfir því sem gerðist hérna áðan. Ég ætlaði ekki að koma hingað upp og fjalla um það neitt sérstaklega. Það er ekki um afdrif þessarar atkvæðagreiðslu um afbrigði eða afdrif málsins á Alþingi sem ég hef neitt að segja og ég hefði ekki komið hingað upp nema fyrir skýringar virðulegs forseta á því hvernig þetta hafi allt saman átt sér stað og á hvaða forsendum virðulegur forseti meti hvað hann setji á dagskrá undir þessum kringumstæðum með tilliti til þess sem áður hefur verið samið um við formenn og þingflokksformenn. Mér finnst hvorki vettvangurinn né tíminn til að rökræða það núna, enda þyrfti að fara ofan í kjölinn á ansi mörgu ef það ætti að fara að kryfja allar skýringarnar sem hafa komið frá virðulegum forseta. Ég legg til hins vegar að það verði rætt í forsætisnefnd og/eða á vettvangi þingflokksformanna vegna þess að ég held að það sé hægt að fyrirbyggja svona. Ég held bara að þá þurfi aðeins öðruvísi viðhorf til þess hvað teljist samþykki stjórnarandstöðunnar.