150. löggjafarþing — 138. fundur,  3. sept. 2020.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

998. mál
[21:31]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Það eru margir landsmenn sem hafa frétt af þessu þingmáli í dag og hugsað með sér: Déjà vu. Hér er um að ræða þingmál sem var unnið í fjármálaráðuneytinu en hæstv. fjármálaráðherra reyndi að fá efnahags- og viðskiptanefnd til að flytja málið fyrir sig. Það vekur alltaf ákveðna tortryggni mína þegar slíkt er gert og ég hef í nánast öllum tilfellum síðan ég kom á þing mótmælt slíkum málatilbúnaði þó að ég hafi vissulega í undantekningartilfellum fallist á að það sé í lagi þegar mál hafa verið nægjanlega einföld og nægilega aðkallandi. Ég mótmæli því oftast vegna þess að með því er verið að „skammhleypa“ eða stytta sér leið í þinglegu ferli og auðvitað ferli ríkisstjórnarinnar ásamt því að draga úr ábyrgð ráðherra á málinu og varpa þeirri ábyrgð yfir á þingið.

Ég ætla í þessari ræðu að færa rök fyrir því að þetta mál sé alls ekki einfalt og geti verið býsna hættulegt. Ég ætla líka að færa rök fyrir því að málið sé óþarfi, þ.e. það er hvorki auðvelt né aðkallandi.

Almannarómur segir að afleiðuviðskipti séu hættuleg. Sumir fá hreinlega grænar bólur við tilhugsunina og minnast hrunsáranna enda hægt að færa nokkuð sannfærandi rök fyrir því að afleiðuviðskipti hafi legið hruninu til grundvallar. Það er vel skjalfest. En afleiðuviðskipti eru þó ekki endilega hættuleg. Það er mikilvægt að halda því til haga að þau eru ekki alltaf hættuleg þó að þau séu það vissulega mjög oft. Að hluta til er hættan fólgin í því að oft er um að ræða mjög flókna fjármálagerninga sem hægt er að flækja enn frekar með ýmsum hætti. Við getum flokkað afleiðuviðskipti á ýmsa vegu og besta grunnflokkunin er sú að hægt er að nota þau annars vegar til áhættuvarna og hins vegar spákaupmennsku. Ef þriðji flokkurinn er til þá veit ég ekki um hann, og væri gaman að heyra um hann.

Dæmi um áhættuvörn er t.d. þegar flugfélag kaupir kaupréttarsamning fyrir eldsneyti á viðráðanlegu verði til þess að geta forðast rekstraráhættuna af því að eldsneytisverð hækki í framtíðinni. Vissulega væri slíkur samningur peningasóun ef verðið færi niður, en það er eðli lögmálsins. Oft eru þetta mjög góð veðmál fyrir t.d. flugfélög og það eru ýmiss konar fyrirtæki úti um allan heim sem stunda nákvæmlega þessa tegund viðskipta. Bændur stunda þau líka til þess að tryggja að þeir geti selt sínar vörur o.fl.

Dæmi um spákaupmennsku væri t.d. ef lífeyrissjóður keypti áskriftarsamning að fyrirtæki sem stendur höllum fæti, í þeirra von að fyrirtækið rétti úr kútnum og verðmæti þess aukist. Þar er augljóslega meiri áhætta á ferðinni. Þetta er spákaupmennska. Þarna er verið að vona hið besta. Og ef allt gengur að óskum er auðvitað til mikils að vinna.

Þegar lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða var breytt árið 2016, reyndar í eitt af fjórum skiptum sem þeim var breytt það árið, var ákveðið að breyta ekki þeirri takmörkun á afleiðuviðskiptum lífeyrissjóða að eingöngu afleiðuviðskipti til áhættuvarna væru leyfileg. Í nefndaráliti efnahags- og viðskiptanefndar með þeirri lagabreytingu segir m.a., með leyfi forseta:

„Afleiðusamningar er einkum nýttir í áhættuvarnir annars vegar og spákaupmennsku hins vegar. Nefndin telur spákaupmennsku með afleiðusamningum ekki samræmast hlutverki lífeyrissjóða sem langtímafjárfesta. Nefndin leggur því til að áfram verði áskilið að afleiður dragi úr áhættu sjóðanna séu þær keyptar.“

Undir þetta nefndarálit rituðu nokkrir núverandi hv. þingmenn, m.a. Brynjar Níelsson og Willum Þór Þórsson, sem eru meðal flutningsmanna málsins nú, og svo hæstv. forsætisráðherra Katrín Jakobsdóttir.

Það er forvitnilegt að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur leggi nú til, í gegnum bakdyraleiðina, í gegnum efnahags- og viðskiptanefnd, að banni við spákaupmennsku verði að hluta til aflétt. Það er líka forvitnilegt að hv. þingmenn Brynjar Níelsson og Willum Þór Þórsson virðast hafa skipt um skoðun hvað þetta varðar og væri gaman að heyra frá þeim hvers vegna.

Athugum að í þessu frumvarpi er ekki verið að opna á almenna spákaupmennsku með afleiðusamninga heldur er eingöngu verið að leggja til að tvenns konar afleiður verði heimilaðar umfram það sem leyft er í dag. Og áður en við tölum um þær gerðir afleiða skulum við veita því athygli að það er engin takmörkun á viðskiptum lífeyrissjóðanna með afleiðusamninga í dag, að því gefnu að þeir minnki áhættu í rekstri lífeyrissjóðsins. Það þýðir að það eina sem er verið að heimila hér eru viðskipti sem auka áhættu lífeyrissjóðanna. Afleiðugerðirnar tvær eru kaupréttur og áskriftarréttur. Kaupréttarsamningur er afskaplega einfaldur; eigendur samningsins mega á einhverjum tímapunkti í framtíðinni kaupa eitthvað tiltekið, oft á tilgreindu gengi og jafnvel með fleiri kvöðum. Áskriftarréttur er flóknari, en samt nokkuð einfaldur. Hann veitir yfirleitt hluthöfum sem eiga þegar hluti í fyrirtæki eða álíka réttindi til að kaupa fleiri hluti í framtíðinni, oftast á tilgreindu gengi, í þeim tilgangi að koma í veg fyrir þynningu á eignarhlut þeirra, að prósentutala þeirra lækki. Þeir eru í raun að kaupa rétt til þess að geta borgað fyrir fram umsamið verð í framtíðinni til þess að eignast fleiri hluti þannig að þeir muni eiga sömu prósentu í fyrirtækinu, þrátt fyrir fjölgun hlutabréfa.

Þessum tegundum afleiða fylgir tvenns konar áhætta. Annars vegar er áhættan af því að fé glatist sé réttur keyptur í áhætturekstri sem ber sig ekki. Það er ekki endilega mikil áhætta ef þetta er keypt á góðu verði en er vissulega áhætta. Hins vegar er hætta á, sérstaklega af áskriftarréttinum, að góðu fé sé hent á eftir slæmu í fyrirtæki í erfiðum rekstri. Þar gildir rökvillan um sokkinn kostnað, á ensku, með leyfi forseta, „sunk cost fallacy“ og það er klassísk hegðun spilafíkla. Déjà vu.

Nú skulum við athuga að þetta mál er ekki lagt fram af tilviljun á þessum tímapunkti heldur er það beinlínis vegna væntanlegs hlutafjárútboðs Icelandair. Þar er gert ráð fyrir að þeir sem kaupi hlutabréf fái með þeim áskriftarréttindi, sem er reyndar mjög gott fyrirkomulag, einkum ef núverandi hluthafar í Icelandair eigi ekki líka áskriftarréttindi. Þá er það bara mjög skynsamleg nálgun hjá Icelandair að bjóða áskriftarréttindi með. Gott og vel. En þetta er ekki sértækt lagafrumvarp sem snýr að þessu tiltekna hlutafjárútboði. Þetta er almennt lagafrumvarp sem snýr að öllum viðskiptum allra lífeyrissjóða landsins sem heimilar þeim að stunda áhættusamari viðskipti með skyldusparnað landsmanna en þótti ráðlegt árið 2016.

Nú kemur það ekkert sérstaklega á óvart að lífeyrissjóðirnir séu til í að mega stunda þessi viðskipti. Það er líklega hægt að færa ágætisrök fyrir því að þetta er ekki endilega svo mikil áhætta og eðlilegar áhættustýringarreglur og annað sem er í lögum dugi til þess að takmarka umfang áhættunnar, eins og hv. þm. Óli Björn Kárason talaði í raun um rétt áðan. En ég sé ekki á þessum tímapunkti að Alþingi hafi getu til þess að fullvissa sig um slíkt á örfáum dögum. Ég tel að það sé galið að ætlast til þess að Alþingi kvitti upp á slíka áhættu án þess að hafa tekið málið almennilega fyrir. Þá meina ég að fá álit færustu sérfræðinga, fá fleiri sér til ráðgjafar heldur en annars vegar lífeyrissjóði sem hafa almennt áhuga á þessari áhættu og hins vegar fjármálaráðuneytið sem vill greinilega ýta lífeyrissjóðunum út í þetta tiltekna hlutafjárútboð.

Það er reyndar svo að efnahags- og viðskiptanefnd fékk álit fjármálaeftirlits Seðlabankans í gær og það var ágætt. Mér fannst þó ekki augljóst af því samtali að þetta væri æskileg leið. Tilfinning mín, út frá þeim fundi, var að hér væri verið að opna á mikla óvissu. Og það er hreinlega vegna eðli afleiðusamninga. Þó svo að þeir geti verið í sinni einföldustu mynd afskaplega hættulausir, ef rétt er staðið að þeim, þá geta þeir hæglega farið úr böndunum eins og við höfum séð aftur og aftur.

Forseti. Góðu fréttirnar eru að þetta mál er óþarfi. Það er enn þá nægur tími til þess að aðlaga útboðsslýsinguna þannig að fjárfestar hafi val um það hvort keyptur sé hluti með eða án áskriftarréttinda. Vissulega eru kaup á hlutabréfum án slíkra réttinda ekki jafn eftirsóknarverð, það er alveg rétt, en það væri auðveldara að sætta sig við slíka takmörkun heldur en að breyta landslögum á hundavaði með bullandi óvissu undirliggjandi. Við höfum séð það áður. Ég segi bara: Déjà vu.

Hitt er að þetta frumvarp þyrfti ekki endilega að opna almennt á viðskipti með kaupréttar- og áskriftarréttindi. Það væri hægt að aðlaga það þannig að það væri heimilt að fá áskriftarréttindi en ekki að nýta sér þau. Eða hugsanlega eitthvert annað fyrirkomulag. Það eru eflaust margar leiðir til að leysa þetta vandamál en kjarni málsins er að á þessum tímapunkti er ekki ljóst að þetta frumvarp sé nauðsynlegt, það er ekki ljóst hvort það sé endilega gagnlegt en það er ljóst að það snýst um að auka rekstraráhættu lífeyrissjóða í þágu tiltekins hlutafjárútboðs tiltekins fyrirtækis til viðbótar við haug af öðrum, satt að segja undarlegum ákvörðunum ríkisstjórnarinnar í þessu tiltekna samhengi.

Forseti. Almenningur hefur eðlilega takmarkaðan áhuga á áhættuhegðun með lífeyrissparnað sinn. Við höfum séð hana of oft. Almenningur hefur fengið nóg af fjármálaóreiðu. Það er eðlilegt að almenningur bregðist illa við þessar tilhögun meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar fyrir hönd hæstv. fjármálaráðherra. Mögulega hefði almenningur brugðist við ef hann hefði heyrt af þessu plani fyrr. Ég segi fyrir mig að ég er satt að segja orðinn þreyttur á svona apagangi á Alþingi. Fólkið í landinu á eðlilega kröfu á að ákvarðanir séu teknar í þeirra þágu og það sé ekki beinlínis verið að hvetja til áhættuhegðunar lífeyrissjóðanna með skyldusparnað landsmanna í þágu tiltekins fyrirtækis, algjörlega óháð því hversu kerfislega mikilvægt það fyrirtæki kann að vera. Þetta þótti sumum hv. þingmönnum alla vega árið 2016. Mér finnst það enn þá. Forsendurnar hafa ekkert breyst. Ekkert hefur breyst en samt sem áður: Déjà vu.