150. löggjafarþing — 138. fundur,  3. sept. 2020.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

998. mál
[21:43]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Smára McCarthy fyrir ræðuna. Það kemur kannski ekki á óvart að við séum ekki alveg samstiga. En við eigum oft góð samtöl, bæði í efnahags- og viðskiptanefnd og líka utan nefndarinnar. Oft eru þau eiginlega skemmtilegri fyrir mig en fyrir hv. þingmann.

Mér finnst samt sem áður gæta ákveðins misskilnings hjá félaga mínum í efnahags- og viðskiptanefnd. Ég fullyrði að þetta frumvarp mun ekki auka áhættu í fjárfestingum lífeyrissjóðanna. Það er ekki þannig. Þetta gefur hins vegar lífeyrissjóðunum möguleika á að njóta með áskriftarrétti hagfelldrar verðþróunar á hlutabréfum í því félagi sem lífeyrissjóðurinn hefur keypt í í hlutafjárútboði og fengið með í kaupbæti áskriftarrétt, sem hann hefur engar skyldur til að nýta sér en getur gert ef þróunin er hagfelld. Það er sem sagt verið að auka möguleika lífeyrissjóða til að nýta sér hagkvæma eða hagstæða þróun til framtíðar ef svo ber undir. Sé hún neikvæð eru engar kvaðir lagðar á lífeyrissjóðina um að nýta sér slík réttindi. Vandinn í gildandi lögum er að lífeyrissjóðunum er hreinlega bannað að nýta sér afleiðuviðskipti nema, hæstv. forseti, að það feli í sér að áhætta sjóðsins minnki en standi ekki í stað.