150. löggjafarþing — 138. fundur,  3. sept. 2020.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

998. mál
[21:48]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Herra forseti. Bara örstutt og þannig að það sé alveg skýrt: Þetta frumvarp felur ekki með neinum hætti í sér að áhætta lífeyrissjóða í fjárfestingum aukist. Haldi menn það verða þeir að hugsa hlutina aðeins upp á nýtt. Það gefur lífeyrissjóðum hins vegar möguleika á að njóta hagfelldari þróunar ef gæfan verður okkur hliðholl á komandi árum.

Hins vegar koma ákvæði gildandi laga í veg fyrir að lífeyrissjóðir geti tekið þátt í hlutafjárútboði fyrirtækja, íslenskra fyrirtækja, þar sem í boði er áskriftarréttur. Við verðum að reyna að tryggja að lífeyrissjóðirnir, og landsmenn þar með, eigi möguleika á að taka þátt í hlutafjárútboði sem er talið skynsamlegt af stjórnendum og stjórn viðkomandi lífeyrissjóða. Og ef þróunin er hagfelld eigi þeir auk þess möguleika á enn meiri arðsemi fjárfestingarinnar ef svo ber undir án þess að það sé nokkur skylda eða að nokkur áhætta sé tekin því samfara. Ég held að það sé mikilvægt að hv. þingmenn og landsmenn skilji þetta.