150. löggjafarþing — 138. fundur,  3. sept. 2020.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

998. mál
[21:49]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Nú erum við alveg hjartanlega sammála. Það er mikilvægt að hv. þingmenn og hæstv. landsmenn átti sig á þessu. Ef þetta er tilfellið vil ég að allir átti sig á því. Og ef þetta er ekki tilfellið vil ég að allir átti sig á því. Þetta var einmitt það sem ræða mín fjallaði um og það sem ég er að reyna að benda á.

Árið 2016 komst nefndin að þveröfugri niðurstöðu, þ.e. að ekki ætti að leyfa þetta og ég veit ekki til að neitt hafi breyst. Ef eitthvað hefur breyst þurfum við að ræða það. Og ég get ekki séð að á þessum örfáu dögum sem við höfum náum við að ræða það í þaula þannig að niðurstaðan sé algerlega ljós.

Ef það er satt sem hv. þingmaður segir, að það sé engin aukin áhætta, get ég auk þess ekki séð að þetta sé ólíkt öðru sem er gert nú þegar undir núverandi lögum. Mér fannst ekki nógu skýrt hjá þeim gestum sem við í nefndinni fengum til okkar í gær að þetta væri endilega bannað heldur væri þetta vissulega á gráu svæði. En grá svæði eru brauð og smjör allrar íslenskrar löggjafar. Þar eru svo mörg grá svæði að um það mætti skrifa margar þykkar bækur. Ég er því ekki viss um að við ættum að hengja okkur í þetta þegar sá möguleiki er fyrir hendi að það opni á óþarfa áhættu. Ég er að reyna að koma nákvæmlega þessu á framfæri.

Það getur vel verið að hv. þingmaður hafi rétt fyrir sér. Ég myndi reyndar gjarnan vilja það vegna þess að mér finnst hljóma ótrúlega vel að geta stundað viðskipti og haft mjög góða hagnaðarmöguleika án þess að taka neina áhættu. Það hljómar rosalega vel. En staðreyndin er: Það eru ekki allir sammála. Við þurfum tíma til að fara rækilega yfir þetta og hann höfum við ekki í augnablikinu.