150. löggjafarþing — 139. fundur,  4. sept. 2020.

breyting á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru .

972. mál
[14:05]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við greiðum hér atkvæði um öflugar vinnumarkaðsaðgerðir. Það er verið að mæta þeim hópi atvinnulausra sem stendur í erfiðri stöðu. Við erum að framlengja tekjutengdar atvinnuleysisbætur í sex mánuði, sem skiptir gífurlega miklu máli. Við erum að styðja við fólk sem er atvinnulaust svo að það eigi kost á því að fara í nám og efla stöðu sína á vinnumarkaði, sem er líka gífurlega mikilvægt. Við erum að styðja við að fólk sem farið hefur í starfsendurhæfingu komist aftur út á vinnumarkaðinn með stuðningi atvinnuleysisbóta. Við höldum áfram að vinna í því að styðja við það fólk sem lendir í því að verða atvinnulaust en það er gífurlega erfitt að vera í þeirri stöðu. Þessar aðgerðir núna segja ekki til um það hvað verður gert í framhaldinu. Þetta er stór áfangi í að standa á bak við atvinnulaust fólk við þær erfiðu aðstæður sem nú eru í þjóðfélaginu.