150. löggjafarþing — 139. fundur,  4. sept. 2020.

breyting á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru .

972. mál
[14:17]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Þetta er sæmilegt mál, sæmilegt frumvarp sem fer hér í gegn. Það hefði getað orðið frábært, alveg meiri háttar, ef það tæki til allra sem á þurfa að halda. En því miður er verið að skilja eftir fólk; listamenn, foreldra langveikra barna og fleiri. Það er skelfilegt að segja við þetta fólk: Þið eigið að vera launalaus áfram, sem eruð búin að vera launalaus lengi og fáið að vera það áfram. Ég er með það á hreinu að enginn í þessum sal vill að sagt sé við hann: Nú átt þú að vera launalaus í nokkra mánuði. Við eigum ekki að bjóða neinum upp á það. Ég mun styðja málið fyrir þá sem það virkar vel fyrir. En það er ömurlegt til þess að vita að hópur sé skilinn eftir.