150. löggjafarþing — 140. fundur,  4. sept. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[15:01]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég geri ekki athugasemd við þá reglu að ríkið eigi að koma síðast inn og fara fyrst út. Ég spyr hins vegar: Af hverju er ríkisstjórnin ekki tilbúin að útvíkka tryggingavernd sína gagnvart þessu stóra láni? Þetta eru 15 milljarðar. Þetta er meira en allar barnabætur sem landsmenn fá. En mig langar hins vegar spyrja í seinna andsvari mínu: Af hverju eru ríkisstjórnarflokkarnir ekki tilbúnir að skilyrða ríkisaðstoðina með þeim hætti að verðandi eigendur eða núverandi eigendur Icelandair eigi ekki rætur sínar að rekja til skattaskjóla? Þetta ræddum við líka og við hefðum getað bætt því í skilmálana alveg eins og að í skilmálunum er áskilnaður um að höfuðstöðvar Icelandair eigi að vera á Íslandi. Það hefði verið hægur leikur, hefði verið pólitískur vilji til þess, að bæta við skilyrði sem m.a. ASÍ kallaði eftir, um að það ætti að vera óumdeilt að eigendur Icelandair gætu ekki rakið rætur sínar til skattaskjóla á meðan þeir nytu ríkisaðstoðar.